fbpx
Miðvikudagur 17.desember 2025
Fréttir

Móðir ófeðraðs barns forvitnaðist um réttindi sín en fékk rangar upplýsingar – Uppgötvaði hið rétta 14 árum síðar

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 17. desember 2025 19:31

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd velferðarmála tók í nóvember fyrir óhefðbundið mál. Þangað hafði leitað móðir barns sem er ófeðrað. Tryggingastofnun ríkisins (TR) hafði í maí á þessu ári samþykkt að greiða henni barnalífeyri með syni sínum en vildi aðeins greiða henni lífeyri tvö ár aftur í tímann þrátt fyrir að hún hafi sótt um greiðslur frá og með árinu 2011.

Móðirin útskýrði að sonur hennar hafi aldrei verið feðraður. Enginn faðir sé tilgreindur á fæðingarvottorði en faðir hans er erlendur. Móðirin átti í stuttu sambandi við föður á meðan hún dvaldist erlendis en uppgötvaði ekki að hún væri barnshafandi fyrr en nokkrum vikum eftir að hún kom aftur heim til Íslands. Hún hafi reynt að hafa uppi á barnsföður sínum en það hefur ekki borið árangur.

Fljótlega eftir fæðingu, eða fyrir um 14 árum síðan, hafi hún leitað til yfirvalda til að fá upplýsingar um hvert hún gæti snúið sér varðandi greiðslur meðlags eða barnalífeyris. Stofnunin sem hún leitaði til er ekki nafngreind í úrskurðinum en líklega er þar um að ræða Innheimtustofnun sveitarfélaga (nú IHS). Móðirin segir að viðmótið sem hafi mætt henni hafi vægast sagt verið skrítið og upplifði hún að starfsmenn væru að hæðast að henni. Þegar hún í framhaldinu leitaði til sýslumanns fékk hún svo að heyra að hún hefði hvorki rétt til meðlags né barnalífeyris. Hún fékk engar leiðbeiningar um að ef hún gæti ekki feðrað barn sitt þyrfti hún að lýsa því yfir hjá embættinu og ekki fékk hún heldur leiðbeiningar um að hún ætti líklega rétt til barnalífeyris vegna aðstæðna.

Hún hafi yfirgefið sýslumannsembættið í góðri trú um að hafa þar fengið réttar upplýsingar og hafði ekki hugmynd um að hún ætti rétt til barnalífeyris. Taldi hún að brotið hefði verið gegn lögbundinni leiðbeiningarskyldu og það orðið til þess að hún og sonur hennar urðu af mikilvægum réttindum.

Það var svo ekki fyrr en hún hitti aðra konu í sömu aðstæðum löngu seinna að hún gerði sér grein fyrir rétti sínum og leitaði þá strax til TR, en þá fengið að vita að stofnunin greiðir aðeins tvö ár aftur í tímann.

TR benti á að samkvæmt lögum beri stofnuninni að greiða barnalífeyri þegar það liggur fyrir að barn verði ekki feðrað. Eins segi í lögum að greiðslur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að TR berst umsókn.

Úrskurðarnefndin rakti að það segir enn fremur í lögum að sækja þurfi um allar greiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar. Barnalífeyrir vegna framfærslu barna er því ekki sjálfkrafa greiddur af Tryggingastofnun heldur þarf sérstaklega að sækja um slíkar greiðslur. Réttur til greiðslna stofnast frá og með þeim degi sem umsækjandi telst uppfylla skilyrði til greiðslna og skal reikna greiðslur frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að greiðsluréttur er fyrir hendi, þó aldrei lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn berst til TR.

Úrskurðarnefndin taldi lögin skýr hvað þetta varðar. Ekki sé heimilt að ákvarða greiðslur lengra aftur í tímann en tvö ár. Ákvörðun TR var því staðfest.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hetjan í Ástralíu rýfur þögnina – Meiðslin miklu alvarlegri en talið var í fyrstu

Hetjan í Ástralíu rýfur þögnina – Meiðslin miklu alvarlegri en talið var í fyrstu
Fréttir
Í gær

Metfjöldi sendinga á afsláttardögum

Metfjöldi sendinga á afsláttardögum