
Héraðsdómur Reykjavíkur og Landsréttur hafa úrskurðað að maður hafi rofið skilyrði reynslulausnar og er honum því gert að sitja af sér eftirstöðvar 430 daga fangelsissvitar. Í úrskurðinum segir að maðurinn hafi meðal annars gerst sekur um brot sem varða allt að 16 ára fangelsi. Hefur hann að mati lögreglustjóra með háttsemi sinni að undanförnu rofið gróflega almennt skilyrði reynslulausnarinnar.
Kemur fram að umræddur maður er undir sterkum grun um að hafa átt aðild að ráni sem framið var þann 17. nóvember síðastliðinn, á heimili pars. Lögregla var þar kölluð til vegna fimm aðila (fjórir karlar og ein kona) sem höfðu farið inn á heimili brotaþola, ógnað þeim með skotvopni og haft á brott með sér sjónvarp, stól, fatnað, skó, og hálsmen. Brotaþolar nafngreindu alla fimm gerendurna í málinu og var einn þeirra kærði. Áður hafið kærði knúið dyra í húsnæðinu ásamt öðrum manni og skipað brotaþola að elda fyrir sig mat sem hann hafði ekki orðið við. Því næst ruddust þrjú önnur inn í íbúðina. Eitt þeirra sló konuna í höfuðið með byssuskeftinu en kærði og aðrir grunaðir héldu manninum svo hann gæti ekki komið henni til hjálpar. Tveir mannanna tóku sjónvarpið af veggnum og báru það út í sendibíl og síðan var farið út með fatnað, skópar og stól.
Kærði er grunaður um fjölmörg önnur alvarleg brot á reynslutímanum, meðal annars stórfelldar líkamsárásir og fíkniefna- og vopnalagabrot. Hann er meðal annars sakaður um að hafa barið mann með útdraganlegri kylfu í höfuð og fingur, en brotaþoli var alblóðugur eftir þetta og með áverka á höfði og fingrum.
Hann er einnig undir sterkum grun um að hafa hleypt af skotvopni inni á hótelherbergi í Reykjavík en skotvopnið tók hann ófrjálsri hendi úr byssuskáp föður síns.
Landsréttur hefur núna staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að kærði hafi rofið skilyrði reynslulausnar og skuli afplána 430 daga af refsingu sem hann var dæmdur til.
Úrskurðina má lesa hér.