fbpx
Miðvikudagur 17.desember 2025
Fréttir

Súlunesmálið: Leituðu til miðils og tónlistarmanns til að sefa ofsa Margrétar

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 17. desember 2025 14:30

Margrét Halla Hansdóttir Löf. Mynd: Facebook.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margrét Helga Hansdóttir Löf, sem á þriðjudag var sakfelld fyrir morð gegn föður sínum og alvarlega líkamsárás gegn móður sinni, er 28 ára gömul, fædd og uppalin í Garðabæ. Hún lauk stúdentsprófi frá Verzlunaskólanum árið 2017 en tilraunir hennar til að fóta sig í háskólanámi hafa verið stopular. Hún hefur einnig unnið við ummönnunarstörf. Hún hefur sinnt hestamennsku af miklu kappi og keppt í hestaíþróttum. Foreldrar hennar hafa fjármagnað það dýra áhugamál.

Hún hefur að mestu búið í foreldrahúsum, í stóra einbýlishúsinu við Súlunes sem var vettvangur glæpsins. En árið 2023 keyptu foreldrar hennar fyrir hana íbúð í Kópavogi. Notaði hún íbúðina sem afdrep en var áfram í foreldrahúsum. Hún flutti samt tímabundið að heiman í nokkur skipti frá og með haustinu 2022 og fór meðal annars í lýðháskóla á árinu 2024. En í lok nóvember 2024 flutti hún aftur inn á æskuheimili sitt á Súlunesi.

Tveimur dögum eftir það hófst ofbeldi hennar gegn foreldrum hennar sem stóð linnulítið fram að dauða föður hennar, 11. apríl á þessu ári. Ljóst er að aldraðir foreldrar Margrétar hafa sér litla vörn getað veitt gegn ofbeldi hennar því hún er 182 cm á hæð, 93 kg og hefur æft bardagaíþróttir.

Leitað til sálfræðinga, miðils og tónlistarmanns

Í dómnum er greint frá langri sögu erfiðra samskipta í fjölskyldunni og heimsóknum til sálfræðinga og fjölskylduráðgjafa til að ráða bót á því. Margrét sakar foreldra sína um ofbeldi, föðurinn um líkamlegt ofbeldi og móðurina um andlegt ofbeldi. Fátt er þó í dómum sem hönd á festir um þetta en á hinn bóginn ítarleg sönnunargögn um ofbeldi Margrétar í garð foreldrana.

Fjölskyldan leitaði þó ekki bara til slíkra fagmanna til að freista þess að vinna gegn skapofsa Margrétar heldur líka til miðils og tónlistarmanns. Miðillinn gaf skýrslu hjá lögreglu við rannsókn málsins, það er kona, sem er kölluð Þ í texta dómsins. Kemur fram að Margrét var í sambandi við hana strax eftir morðið en um framburð miðilsins í skýrslugjöf hjá lögreglu segir í texta dómsins:

„Þ miðill og heilari gaf skýrslu hjá lögreglu 14. apríl. Hún kvað brotaþola hafa komið til sín á miðilsfund fyrir 3-4 árum og greint frá því að ákærða dóttir hennar væri með suð í eyra. Í framhaldi hafi mæðgurnar komið saman til Þ í einhver skipti, með þeim tekist ágætur vinskapur, Þ meðal annars farið í hesthús ákærðu og sent henni afmæliskveðju 10. apríl sl.

Þ kvað ákærðu hafa vakið hana með símtali snemma morguns föstudaginn 11. apríl, ákærða þá verið í miklu uppnámi, sagt föður sinn hafa dottið niður stiga og að verið væri að reyna að endurlífga hann. Jafnframt hafi ákærða beðið Þ að senda heilun eða fyrirbænir til að bæta líðan og orku ákærðu. Í símtalinu hafi ákærða sagst hafa fyrr um daginn „ráðist á pabba sinn eitthvað“ og hún kallað það „vesen“. Þ kvaðst vita að ákærða ætti fremur langa sögu um ofbeldi í garð foreldra sinna og ákærða nefnt í fyrri samtölum að hún ætti erfitt með að stjórna skapi sínu. Ákærða hafi aldrei rætt við Þ um ofbeldi eða harðræði af hálfu foreldranna og öll ummæli hennar um þau borið með sér mikla væntumþykju og stuðning við hana.

Fram kom að Þ hafi hringt í brotaþola á afmælisdegi ákærðu, brotaþoli þá óttast að eitthvað kæmi upp á og hún sagt ákærðu hafa barið föður sinn í andlitið og hann dottið. Brotaþoli hafi einnig rætt um ofbeldi ákærðu gegn henni og Þ hvatt hana til að hafa samband við lögreglu. Fyrir þetta símtal kvaðst Þ síðast hafa hitt brotaþola í janúar 2025, hún þá verið með áverka í andliti og sagt þá vera af völdum ákærðu.

Þ gaf aðra lögregluskýrslu 29. apríl. Þ bar að í símtali hennar og ákærðu aðmorgni 11. apríl hafi komið fram að ákærða hafi ekki séð föður sinn falla niður stiga, en skildist að sú væri raunin og faðir hennar fengið hjartaáfall. Ákærða hafi verið í miklu sjokki og haft áhyggjur af sjálfri sér. Þá kom fram að sumarið 2023 hafi ákærða fyrst opnað sig gagnvart Þ um ofbeldi gegn foreldrum sínum.“

Tónlistarmaður var kallaður til skýrslutöku hjá lögreglu þann 30. apríl, eða um tveimur og hálfri viku eftir morðið. Sagði hann að áðurnefndur miðill hefði fengið hann til að hlýða á frásögn Margrétar og gefa ófaglærð ráð um hvernig Margrét gæti bætt ofbeldiskennd samskipti við foreldra sína. Tónlistarmaðurinn sagðist ekki muna hvenær hann hitti Margréti en taldi að það hefði verið (orðrétt): „…í vikunni áður en hún síðan drepur pabba sinn.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

500 fjölskyldur fá matarúttekt frá Krónunni og viðskiptavinum

500 fjölskyldur fá matarúttekt frá Krónunni og viðskiptavinum
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Hjón réðust til atlögu við annan af hryðjuverkamönnum á Bondi-strönd en lifðu það ekki af – Hyllt sem hetjur

Hjón réðust til atlögu við annan af hryðjuverkamönnum á Bondi-strönd en lifðu það ekki af – Hyllt sem hetjur
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

„Þá blasti við mér lítið barn í miðjum eldinum”

„Þá blasti við mér lítið barn í miðjum eldinum”
Fréttir
Í gær

Ljósi varpað á það sem gerðist í jólaboði Conan O‘Brien – Nokkrum tímum síðar átti harmleikurinn sér stað

Ljósi varpað á það sem gerðist í jólaboði Conan O‘Brien – Nokkrum tímum síðar átti harmleikurinn sér stað