fbpx
Föstudagur 26.desember 2025
Fréttir

Sakamál ársins II: Morð í Súlunesi, ráðgáta á Edition, stoltur sakborningur og blóðug slagsmál á Litla-Hrauni

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 26. desember 2025 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það var í lok vetrar sem réttað var yfir Hauki Ægi Haukssyni við Héraðsdóm Reykjavíkur vegna ákæru um tilraun til manndráps og líkamsárás til vara. Ólíkt flestum sakborningum í slíkum málum bar Haukur höfuðið hátt, ræddi málið opinskátt við DV og gerði enga tilraun til hylja andlit sitt er hann gekk hnarreistur í dómsal.

Haukur Ægir taldi sig nefnilega ekki hafa framið líkamsárás heldur beitt sér í sjálfsvörn gegn meintum brotaþola. Ákæru gegn sér um tilraun til manndráps taldi hann vera gjörsamlega fráleita. „Ég er enginn engill en ég vil bara taka út refsingu fyrir það sem ég hef raunverulega gert af mér, ekki fyrir upplognar sakir og vitleysu,“ sagði Haukur í viðtali við DV.

Aðdragandinn var sá að dóttir þáverandi kærustu Hauks hringdi grátandi í móður sína. Var hún þá stödd í bíl hjá sýrlenskum leigubílstjóra sem hafði áreitt hana kynferðislega. Móðir stúlkunnar var stödd heima hjá Hauki og upplýsti hann um málsatvik.

Haukur Ægir Hauksson í Héraðsdómi Reykjavíkur. Mynd: DV/KSJ

Haukur Ægir og móðir stúlkunnar lentu í átökum við leigubílstjórann á bílastæði fyrir utan heimili Hauks. Haukur var með manninn í hálstaki er lögregla kom á vettvang en hann sagðist hafa brugðist við í sjálfsvörn við árás mannsins auk þess sem hann var að reyna að tryggja að lögreglan gæti handtekið manninn. Sýrlendingurinn hafði áður barið Hauk með priki og var greinilegur áverki á Hauki eftir höggið. Hann kærði Sýrlendinginn fyrir líkamsárás vegna þess en ekkert hefur gerst í því máli.

Sýrlendingurinn missti meðvitund í hálstakinu og var fluttur á bráðadeild.

Héraðsdómur hafnaði því að Haukur Ægir hefði gerst sekur um tilraun til manndráps en hann var hins vegar sakfelldur fyrir líkamsárás og dæmdur í eins árs fangelsi og til að greiða bílstjóranum hálfa milljón miskabætu.

„Þetta er sturlun,“ sagði Haukur er DV leitaði viðbragða hjá honum eftir dómsuppkvaðninguna.  „Ég er virkilega ósáttur, ég átti aldrei að fá dóm fyrir neitt sem ég gerði þetta kvöld.“

Frægir fangar í slagsmálum

Myndin er samsett. Stefán Blackburn er til vinstri og Gabríel Douane til hægri.

Tveir af frægari refsiföngum landsins, þeir Stefán Blackburn og Gabríel Douane Boama, lentu í heiftarlegum slagsmálum inni á fangaklefa á Litla-Hrauni. Gerðist þetta í lok apríl. Tilefni átakanna voru óuppgerð persónuleg mál milli þeirra, sem DV hefur ekki nánari upplýsingar um. Átökin voru svo harkaleg að fangaverðir á vakt á ganginum treystu sér ekki til að grípa inn í fyrr en þeim hafði borist liðsauki.

Átökin voru svo blóðug að læknir þurfti að hlúa að Stefáni. Báðir mennirnir voru vistaðir á einangrunargangi á Litla-Hrauni í kjölfar átakanna.

Sem alkunna er þá er Stefán Blackburn einn af sakborningum í Gufunesmálinu og fékk 17 ára fangelsisdóm fyrir aðild sína að láti Hjörleifs Hauks Guðmundssonar frá Þorlákshöfn. Gabríel afplánar dóma fyrir margvíleg brot en ekkert þeirra kemst þó nærri því að vera jafn alvarlegt og Gufunesmálið.

Morðinginn úr Rauðagerði giftir sig

Albaninn Angjelin Sterkaj, sem afplánar 16 ára dóm fyrir morð á landa sínum, Armando Beqirai, fyrir utan heimili þess síðarnefnda í Rauðagerði í febrúar árið 2021, gekk í það heilaga í lok Grundarfjarðarkirkju í lok apríl. Bárust DV myndir af brúðkaupinu.

Grundarfjarðarkirkja er skammt frá Kvíabryggju þar sem rekið er opið fangelsi. Mátti því leiða líkur að því að Angjelin væri kominn í opið úrræði aðeins þremur árum eftir að hann var dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir að myrða landa sinn með því að dæla í hann níu byssuskotum. Var morðinu líkt við aftöku.

DV fékk síðan staðfest að Angjelin afplánar eftirstöðvar refsingar sinnar í opnu fangelsi. Honum verður síðan vísað úr landi og settur í endurkomubann á Schengen-svæðið.

Þetta er í samræmi við lög um fullnustu refsinga. Í annarri málsgrein 80. greinar þeirra laga segir (feitletrun DV):

„Heimilt er að veita fanga lausn til reynslu þegar helmingur refsitímans er liðinn, þrátt fyrir að hann afpláni refsingu fyrir alvarlegt eða að öðru leyti gróft afbrot, ef mjög sérstakar persónulegar ástæður mæla með því og framkoma og hegðun fanga í refsivistinni hefur verið með ágætum. Sama gildir liggi fyrir ákvörðun Útlendingastofnunar um að fanga verði vísað úr landi að afplánun lokinni. Nú hefur fangi tvívegis eða oftar afplánað fangelsisrefsingu og verður honum þá ekki veitt reynslulausn samkvæmt þessari málsgrein nema sérstakar ástæður mæli með.“

Hryllingur á Skyggnisbraut

Mikið uppnám varð við götuna Skyggnisbraut og nágrenni í Úlfarsárdal á sólríkum degi í maí er maður gekk þar berserksgang útvið með stóran hníf á lofti. Um var að ræða Hamed M. H. Albayyouk, 42 ára mann frá Palestínu.

Hamed var ákærður vegna málsins en hann var sakaður um að hafa veist með ofbeldi að brotaþola og stungið hann með hníf vinstra megin í brjósthol, en hnífurinn fór í gegnum rifbein, slagæð, vöðva, lungnaafleiðu og þind ásamt því að fara í gegnum þverristil á tveimur stöðum með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut lífshættulega áverka.

Dómur féll í máliu þann 30. október og var Hamed dæmdur í fimm ára fangelsi.

Rakti dómari að Hamed hafi verið í andlegu ójafnvægi, bæði vegna sjúkdóms sem og ástands í upprunalandi sínu. Hann glímdi meðal annars við samviskubit og sektarkennd. Dómari tók þó fram að verknaðurinn yrði þó ekki réttlætur með þessu. Af gögnum máls megi ráða að Hamed hafi deilt við brotaþola í kjölfar ágreinings á milli barna þeirra. Hamed hafi komist í uppnám, orðið reiður og verið í nokkurri geðæsingu vegna þessara deilna er hann framdi brotið. Dómari féllst þó ekki á þá skýringu að brotaþoli hafi valdið þessari geðshræringu með ólögmætri árás eða stórfelldri móðgun.

Til málsbóta horfði að Hamed hefur ekki áður sætt refsingu hér á landi sem máli skiptir við ákvörðun refsingar. Hann játaði brot sitt skýlaust, bæði fyrir lögreglu og fyrir dómi, viðurkenndi bótaskyldu og lýsti yfir iðrun. Dómari taldi enga ástæðu til að draga það í efa að iðrunin væri annað en einlæg og að Hamed sjái einlæglega eftir brotinu.

Til þyngingar horfði þó að brotið var bæði ofsafengið og fyrirvaralaust. Það beindist gegn lífi, líkama og heilsu brotaþola sem var óvopnaður. Atlagan var bæði hættuleg og tilefnislaus og hending ein réði því að ekki hlaust mannsbani. Brotaþoli glímir eins við miklar afleiðingar af árásinni og taldi dómari að á verkanarðstundu hafi brotavilji Hameds verið styrkur og einbeittur.

Morðin á Reykjavík Edition Hótel

Frönsk kona á sextugsaldri, sem búsett er á Írlandi, er í farbanni á Íslandi fram til 27. febrúar árið 2026 vegna dauða eigimanns hennar á sextugsaldrei og dóttur hennar á fertugsaldri, en fólki lést hótelherbergi á Reykjavík Edition Hótel í júnímánuði. Konan er grunuð um að hafa ráðið eiginmanni sínum og dóttur bana.

Margt dularfullt og áhugavert hefur komið fram við rannsókn málsins en RÚV hefur farið fremst í flokki í fréttaflutningi af því. Meðal annars hefur komið í ljós að maðurinn glímdi við alvarlega nýrnabilun. Einnig hefur komið fram að allir símar fjölskyldunnar reyndust tómi er lögregla ætlaði að rannsaka þá. Er fátítt að engin gögn finnist á haldlögðum símtækjum.

Rannsókn málsins er hvergi nærri lokið en hún teygir sig meðal annars til Írlands, þar sem fjölskyldan bjó, og til Svíþjóðar en sænsk rannsóknarstofa hefur aðstoðað lögregluna við ýmsar rannsóknir. Eiríkur Valberg, fulltrúi hjá rannsóknarsviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði í viðtali við RÚV seint í nóvember að rannsóknir sem teygi anga sína yfir landamæri gjarnan taka lengri tíma og því telji hann ekkert óeðlilegt við það að rannsóknin hafi staðið yfir í rúma fimm mánuði.

Fjölskylduharmleikur í Súlunesi

Laugardaginn 12. apríl, er blaðamaður DV var í innkaupaferð í Bónus, fékk hann símtal frá ónefndum heimildarmanni með ábendingu um að að líklega hefði verið framið morð einhvers staðar á höfuðborgarsvæðinu. Er blaðamaður hafði samband við tengilið hjá lögreglunni fékk hann ekki aðrar upplýsingar en þær að lögregla væri að rannsaka mjög viðkvæmt mál og var hvorki staðfest að um andlát né manndráp væri að ræða. Daginn eftir birti lögreglan þó fréttatilkynning um að andlát manns væri til rannsóknar.

Á næstu dögum grófu fjölmiðlar smám saman upp upplýsingar sem núna eru alkunnar, t.d. að um ung kona væri grunuð um morð gegn föður sínum, að fjölskyldan byggi í stóru húsi í Garðabæ og væri sterkefnuð, og að stúlkan hefði beitt foreldra sína ofbeldi.

Eftir að ákæra héraðssaksóknara í málinu barst fjölmiðlum varð ljóst að Margrét Helga Hansdóttir Löf hafði beitt báða foreldra sína langvarandi, grófu og stigvaxandi ofbeldi sem lauk með því að hún varð föður sínum að bana þann 11. apríl á þessu ári.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness í málinu sem kveðinn var upp og birtur þann 16. desember dregur síðan upp mynd af sjúku og ofbeldisþrungnu samskipamynstri fjölskyldunnar í Súlunesi. Dómurinn leiðir meðal annars í ljós að foreldrar Margrétar leituðu hvað eftir annað til sjúkrastofnana vegna áverka sinna eftir hana. Þrátt fyrir það var ofbeldið aldrei tilkynnt til lögreglu. Hefur þetta vakið upp umræðu um þagnarskyldu heilbrigðisstarfsfólks og hvort gera þurfi breytingar á þeim svo starfsfólki verði bæði mögulegt og skylt að tilkynna til yfirvalda grun um ofbeldi gegn sjúklingum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslendingur í fangelsi í Kólumbíu grunaður um kynferðisbrot gegn unglingsstúlku

Íslendingur í fangelsi í Kólumbíu grunaður um kynferðisbrot gegn unglingsstúlku
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Maðurinn er fundinn

Maðurinn er fundinn
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sakar Samtök skattgreiðenda um að hagræða sannleikanum – „Það er einstaklega ógeðfelldur tónn í þessari grein“

Sakar Samtök skattgreiðenda um að hagræða sannleikanum – „Það er einstaklega ógeðfelldur tónn í þessari grein“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

„Hnjúkaþeyrinn getur verið brellinn og brögðóttur“

„Hnjúkaþeyrinn getur verið brellinn og brögðóttur“