

Aflraunamaðurinn Hafþór Júlíus Björnsson er einn af „fulltrúum mannkyns“ í keppni gegn vélmennum í glænýju Youtube-myndbandi Mr. Beast.
Mr. Beast er vinsælasti samfélagsmiðlasmiður heims en myndbönd hans, sem verða sífellt mikilfenglegri, eru með framleiðslukostnað á við stór Hollywood-verkefni og ná ótrúlegri útbreiðslu. Hið nýja myndband, þar sem Hafþór Júlíus stígur á stokk, er til að mynda með um 23 milljónir áhorfa á aðeins 18 klukkustundum.
Í myndbandinu keppa sjö manneskjur gegn vélmennum í sjö greinum og er það Íslendingurinn sem ríður á vaðið gegn illvígu vélmenni í aflraunum. Snýst keppnin um að velta þremur bifreiðum og toga svo heilan strætisvagn af stalli á sem skemmstum tíma. Úrslitin verða látin liggja á milli hluta að sinni en óhætt er að segja að Hafþór Júlíus sé mannkyninu til sóma.
Aðrar greinar sem keppt er í eru hafnabolti, amerískur fótbolti, körfubolti, kappakstri, golfi og spretthlaupi og eru það heimsfrægir íþróttamenn sem spreyta sig gegn vélmennunum sem eru komin mislangt í greinunum.