
Fyrir um 40 árum síðan nutu bækurnar um Ísfólkið eftir norska rithöfundinn Margrit Sandemo mikilla vinsælda hér á landi. Sandemo lýsti bókunum sem ævintýrum fyrir fullorðna en gagnrýnendur kölluðu þær sjoppubókmenntir. Í viðtali við Morgunblaðið árið 1989 sagði rithöfundurinn að lykillinn að metsölubók væri að skrifa um það sem fólkið vill lesa.
„Að sjálfsögðu ást og rómantík, dulúð, ofurlítið af glæpum öðru hvoru, ógn og skelfingu og svo kynlíf.“
Íslenskir rithöfundar hafa margir slegið í gegn með glæpasögum en minna fer kannski fyrir kynlífinu. Bláar skáldsögur, húsmæðraklám, erótískar bókmenntir eða hvað sem maður kýs að kalla bókaflokkinn hafa sjaldan notið jafn mikilla vinsælda og í dag. Erótísk skrif seljast eins og heitar lummur og á Vesturlöndum er nú farið að bera á bókabúðum sem selja ekkert nema tíkurnar tvær – rómantík og erótík.
Íslandi bregður fyrir í Ísfólkinu og spilar svo stærra hlutverk í öðrum bókaflokki sama rithöfundar, Galdrameistaranum, enda fékk Sandemo mikinn innblástur frá íslenskri náttúru. Þessi innblástur skilaði sér svo til baka hingað á klakann þegar Ísfólkið tók þátt í að kynna bláar bækur fyrir unglingsstúlku sem síðar átti eftir að leggja fyrir sig ritstörf í djarfari kantinum – Söndru Clausen.
Sandra Clausen gaf nýlega út sína tíundu bók, en áður hefur hún gefið út bókaflokkinn Hjartablóð sem naut mikilla vinsælda og samanstendur af 7 sögulegum skáldsögum með erótísku ívafi.
Nýi bókaflokkurinn heitir Klúbburinn og fjallar Sandra þar um tilfinningaflækjurnar sem við upplifum gjarnan í gegnum lífið. Bækurnar fjalla um Karen sem er tæplega fertug þegar hún lendir á vegg í lífinu. Karen ákveður í fyrstu bókinni að freista þess að eignast nýtt upphaf á Siglufirði en fær þar boð um að mæta í dularfullan klúbb sem á eftir að draga dilk á eftir sér. Önnur bókin í seríunni kom út á dögunum en þar er Karen stödd á einum uppáhalds viðkomustað Íslendinga – Tenerife.
Sandra segist hafa lesið mikið sem unglingur og þá lesið meðal annars Ísfólkið.
„Má segja að Ísfólkið hafi verið mínar fyrstu bláu bækur, afar spennandi að loka að sér með eina slíka bók og leyfa ímyndunaraflinu að leika lausum hala í kjölfarið, vera jafnvel sjálf komin aftur í tímann og leyfa vissum kynórum að taka völdin í huganum.“
Það var þó ekki bara Ísfólkið sem hún las heldur líka bækur norska rithöfundarins Benta Pedersen sem skrifaði meðal annars Raiju-bókaflokkinn og bækur Jean M sem er frægust fyrir bókaröðina um Þjóð bjarnarins mikla.
„Bækur eftir þessa höfunda eru flestar sögulegar skáldsögur og þar sem ekki er mikið um þess konar skrif hér heima ákvað ég að slá til. Nóg er um sakamálasögur og skiljanlega tengjum við Íslendingar við þetta skandinavíska umhverfi þar sem skammdegi í stormi og viss sálarangist er oft aðalviðfangsefnið og því er gott að geta gleymt sér af og til við ljúflestur. Halda í visst jafnvægi á milli ljóss og birtu í okkar bókaheimi.“
Sandra segir að það hafi ekki verið erfitt að velja þá braut að skrifa bækur af þessu tagi. Hjartablóð eru sögulegar skáldsögur enda Sandra mikið sögunörd.
„En mest heillandi er að lýsa með orðum þær birtingarmyndir sem tjáning ástarinnar tekur á sig og þá oftar en ekki bakvið luktar dyr svefnherbergisins, eða í tilfelli bókanna sem ég skrifa, í skemmunni eða baðstofunni.“

En hvernig er að skrifa erótík? Og hvernig er að skrifa erótík í fámenninu á Íslandi þar sem allir þekkja alla?
„Það má segja að ég hafi þjálfast upp í að skrifa góða erótík með tíð og tíma og að ég hafi verið lítið feimin við það. Ég hef alltaf verið frekar opin og frjálslynd. Ég get vel sagt að ég sé svolítið frökk, en ég set þó alveg mörk um hversu langt ég geng í þeim efnum og þá líka í einkalífinu. Þrátt fyrir að ég skrifi um fjölkvæni þá stunda ég það ekki sjálf en dæmi heldur ekki þá sem það gera. Ég fór þó hægt í sakirnar þegar ég hóf skrif á minni fyrstu bók, með aðeins styttri lýsingum á kynlífi. Ég reyndi einungis að fanga þá fegurð, nánd og tilfinningar sem oft myndast á milli tveggja einstaklinga í samlífi. Það þarf samt að huga vel að réttu orðavali þar sem fallegar ástarsenur og ljúfar lýsingar af lostafullu kynlífi geta fljótt breyst í klámfengin skrif. Það skiptir heilmiklum sköpum hvort notað sé til að mynda orðið limur eða böllur, frygð eða gredda.
Vissulega hugsa ég oft með mér hvort fólkið sem stendur mér næst hlusti eða lesi bækurnar og hvernig svo opinskáar lýsingar komi við það, hvort þeim þyki það óþægilegt, en annars er það úr mínum höndum og hver dæmir fyrir sig. Ég veit að sumar vinkonur mínar geta vart beðið eftir fleiri bókum á meðan frænka mín á erfiðara með grófu senurnar. Annars er alveg magnað hvað bækurnar höfða til margra mismunandi hópa, bæði þegar kemur að aldri og kyni.“
Sandra segir að markhópur hennar hafi í raun komið henni á óvart. Hún hefur heyrt að lesendur séu á öllum aldri, allt frá 16 árum upp í 100 ára og segir að karlmenn séu ekkert síður spenntir að versla bækurnar.
Eins og áður segir eru bækur af þessu tagi kallaðar ýmsum nöfnum. Hvað finnst Söndru um stimpla á borð við húsmæðraklám?
„Margir líkja nýjustu bókunum um Klúbbinn við mömmuklám en eins og áður segir er karlpeningurinn og aðrir ekkert síður hrifin,“ segir Sandra og tekur fram að bækurnar séu meira en kynlífslýsingar, rétt eins og Ísfólkið forðum. Þetta eru heilar sögur, með söguþræði tilfinningum og svo í sögulegu skáldösgunum er að sjálfsögðu heilmikil heimildarvinna á bak við skrifin.

Var ekkert erfitt að fá útgáfusamning fyrir bækur með erótísku ívafi?
„Það má segja að bókabransinn sé harður hérlendis. Ég fór milli forlega með mína fyrstu bók í seríunni Hjartablóð en gafst ekki upp þrátt fyrir nokkrar neitanir. Ég hef alltaf vitað að ég yrði rithöfundur og þó að mér hafi verið klappað á köllinn sem krakki og sagt að maður hefði ekkert upp úr því þá fer mér betur að vera fátækur listamaður og gera það sem ég elska fremur en að sleppa því að elta draumana mína.
Síðan kom sá dagur að ég fékk símhringingu frá Sögum útgáfu. Þeir höfðu trú á að bækurnar myndu seljast sérstaklega vegna erótíkinnar sem þar leynist lína á milli. Þó að þær hafi ekki selst í bílförmum þá er salan að aukast með degi hverjum og hlustun hjá Storytel er mikil.“
Sandra var staðráðin í að láta drauminn rætast og hefur heldur betur verið afkastamikil á ritferlinum. Hún segir að það hafi helst komið henni á óvart hversu tímafrekt ferli fylgir bókaútgáfu. Þó að bókin hafi verið skrifuð er heilmikil vinna eftir.
„Mikil vinna fer í ritstýringu, ferskan lestur, próförk og svo prentun. En það skemmtilegast í þessu öllu saman er þegar þú færð að heyra frá dyggum aðdáendum hversu hrifnir þeir eru af skrifunum og læra að taka hrósi. Einnig venst það að taka gagnrýni en fyrstu neikvæðu orðin sem ég las á prenti voru líkt og högg í magann en í dag vegur það léttar þar sem oft er sú gagnrýni lítið marktæk og ekki uppbyggileg neinum.“
Sandra er ekki bara að skrifa um Klúbbinn núna heldur er þriðja bókaserían komin af stað og kallast hún Blóðbönd. Fyrsta bókin er nú komin út á Storytel. Sögusviðið er 17. öldin á Íslandi og aðalsögupersónan er prestsdóttirin Ingibjörg Jónsdóttir, betur þekkt sem Galdra-Imba.