
Randolph var sakfelldur fyrir hrottafenginn glæp gegn yfirmanni sínum, Minnie Ruth McCollum, en bæði höfðu þau starfað í matvöruverslun í Palatka.
Kvöld eitt árið 1988 reyndi Randolph að komast inn í peningaskáp verslunarinnar og kom Minnie að honum. Til átaka kom á milli þeirra en það var ójafn leikur. Randolph barði hana, kyrkti og stakk áður en hann nauðgaði henni.
Þrjár konur komu auga á Randolph yfirgefa vettvanginn og fannst Minnie illa haldin og í mikilli lífshættu inni í versluninni. Hún var flutt á sjúkrahús þar sem hún lést sex dögum síðar.
Randolph var dæmdur til dauða árið 1989, en ítrekaðar tilraunir lögmanna hans til að fá dómnum breytt í lífstíðarfangelsi báru ekki árangur. Síðasta beiðni hans var lögð fram í síðustu viku og var henni hafnað.
Alls hafa 44 fangar í Bandaríkjunum verið teknir af lífi á þessu ári og yfir tíu aftökur eru fyrirhugaðar áður en árið er á enda.