

Breska blaðið The Guardian greinir frá þessu og vísar í tilkynningu bosníska rannsóknarblaðamannsins Domagoj Margetic til saksóknaraembættisins í Mílanó.
Greint var frá því í síðustu viku að saksóknaraembættið væri með til rannsóknar ásakanir um að ítalskir ríkisborgarar hefðu borgað hermönnum til að taka þátt í eins konar morðtúrisma í Sarajevo. Kom fram að vellauðugir ítalskir ríkisborgarar hefðu keypt sér ferðir til borgarinnar í þeim tilgangi að skjóta íbúa á færi.
Rúmlega 10 þúsund létu lífið í Sarajevo, en það sem íbúar óttuðust mest voru leyniskyttur sem skutu fólk, jafnvel börn, á götum úti. Virtust skytturnar stundum hegða sér eins og tölvuleikjaspilarar eða safaríveiðimenn.
Sjá einnig: Telja að ríkir Vesturlandabúar hafi tekið þátt í hrottalegum morðtúrisma sér til skemmtunarf
Hópur Ítala og einstaklinga af öðrum þjóðarbrotum eru taldir hafa tekið þátt í morðum í Sarajevo gegn ríflegu gjaldi sem var greitt til hermanna sem komu þeim inn í borgina.

Rannsóknina má rekja til kröfu rithöfundarins Ezio Gavazzeni sem hefur safnað gögnum um þennan leyniskyttutúrisma sem og skýrslu sem ákæruvaldinu barst frá fyrrum borgarstjóra Sarajevo, Bejamina Karić.
Í frétt The Guardian kemur fram að Margetic hafi síðustu daga birt sönnunargögn á samfélagsmiðlum þess efnis að Vucic, þá ungur sjálfboðaliði, hafi verið staddur við eina af herstöðvunum í Sarajevo þaðan sem, að sögn vitna, erlendir ríkisborgarar og serbneskir öfgahópar skutu á og drápu óbreytta borgara. Er Margetic sagður hafa látið saksóknaraembættið í Mílanó fá gögn málsins sem mun nú fara yfir þau.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ásakanir gegn Vucic, sem hefur verið forseti Serbíu frá 2017, koma fram, en árið 2021 neitaði hann því staðfastlega að hafa skotið úr byssu í umsátrinu um Sarajevo eða tekið þátt í einhvers konar voðaverkum. Segir hann að ásakanirnar eigi sér pólitískar rætur frá andstæðingum hans.
Nicola Brigida, lögmaður Gavazzeni sem hefur aðstoðað hann við rannsókn málsins, hefur fullyrt að „mjög, mjög, mjög margir Ítalir“ hafi tekið þátt í ódæðisverkunum en líka fólk frá öðrum löndum. „Það voru Þjóðverjar, Frakkar, Englendingar … fólk frá öllum vestrænum ríkjum sem greiddi háar fjárhæðir til að skjóta á óbreytta borgara.“
Hann hefur látið hafa eftir sér að pólitískar eða trúarlegar hvatir hafi ekki legið þarna að baki. „Þetta voru ríkir einstaklingar sem fóru þangað sér til skemmtunar og ánægju. Við erum að tala um fólk sem hefur yndi af skotvopnum og fer kannski í safaríferðir til Afríku.“
Gavazzeni hefur haldið því fram að Ítalirnir sem fóru til Sarajevo hafi hist í borginni Trieste í norðri og ferðast til Belgrad, þaðan sem Bosníu-Serbar fylgdu þeim upp í hæðirnar í kringum Sarajevo.