

Erna Lea Bergsteinsdóttir verkefnastjóri farsældarráðs Vestfjarða ákvað að slá til þegar henni bauðst starfið og flytja á Bíldudal í febrúar. Erna átti ekki von á að fá starfið, sem hún sótti um að áeggjan vinkonu sinnar sem hún býr nú hjá fyrir vestan.
Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Ernu í Segðu mér á Rás 1 og segir Erna að henni hafi verið vel tekið í fámennu samfélagi á Bíldudal og hún sé dugleg að sækja alla viðburði sem hún kemst á.
Eftir útskrift vann Erna hjá Kópavogsbæ sem félagsráðgjafi á öðru stigi farsældar þar sem hún vann við að hitta foreldra og gefa þeim ráð, 25 ára og barnlaus. Segir hún starfið hafa verið erfitt og tekið á andlega.
„Það er mikið lagt upp úr því að við sjálf [nemendur í meistaranámi í félagsráðgjöf] séum líka búin að vinna úr okkar málum, okkar bakpoka svokölluðum. Ég var alltaf í handleiðslu hjá sálfræðingi, bæði í meistaranáminu og á meðan ég var að störfum hjá Kópavogsbæ.“
Erna segir það hafa hjálpað henni mjög mikið og hún segist ekki vita hvar hún væri ef ekki hefði verið fyrir þá ráðgjöf til að takast á við erfiðu málin. „Því það var ekki auðvelt að fara heim og vita að það væri kannski barn í vanda einhvers staðar þarna úti.“
Valgerður vinkona hennar sem hvatti hana til að sækja um starfið hjá Vestfjarðastofu hvatti Ernu líka til að flytja vestur og búa hjá sér því hún hafði líka flutt vestur vegna vinnu.
„Mér fannst þetta bara vera örlögin að toga mig vestur. Ég ákvað að hlusta á þau og skella mér.“
Erna segist þakklát yfirmönnum sínum hjá Vestfjarðastofu fyrir að hafa tekið sénsinn á sér því að hennar mati eigi ungt fólk að fá að tala um málefni ungs fólks. „Eftir því sem ég best veit þá hafa þau bara verið ánægð með þá ákvörðun. Ég er allavega mjög ánægð með að hafa fengið þetta tækifæri.“
Erna segist einnig hafa verið mjög opin með það að hún hefur lengi leitað að ástinni. „Ég vil nú kannski finna ástina í lífinu einhvern tímann. Ég veit ekki alveg hvort þetta sé besti staðurinn, í þessu 250 manna þorpi, til að finna hana,“ sagði hún við vinkonu sína.
„Þetta byrjaði bara í gríni að ég væri að segja öllum að ég væri að leita að ástinni og hvort þau gætu ekki aðstoðað mig með það.“
Á Bíldudal fann Erna frambærilegan mann og segir hún erfitt að leyna ástarsambandi á Vestfjörðum og því viti allir í bæjunum þeirra tveimur af sambandinu. Þurfti hún að láta samstarfsfélagana vita að þau gætu hætt að leita í bili. Á fyrsta stefnumóti þeirra bauð Erna honum á lokaball fjórðungsþings Vestfirðinga sem er einungis fyrir starfsmenn Vestfjarðastofu og kjörna fulltrúa. Hún vissi ekki hve lokaður viðburðurinn var þegar hún fékk leyfi yfirmanns síns fyrir að bjóða honum. Maðurinn sem hún bauð reyndist eini makinn á lokaballinu.
Hlusta má á viðtalið við Ernu í heild sinni hér.