
Tveir daglegir stjórnendur fyrirtækisins Megna ehf voru ákærðir fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum, fyrir að hafa ekki staðið skil á greiðslu virðisaukaskatts fyrir hluta rekstraráranna 2020 og 2021, samtals rúmlega 45 milljónir króna, og fyrir að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir hluta sömu ára, sem nemur um 52 milljónum króna hjá hvorum aðila.
Dómur hefur verið kveðinn upp í málinu Héraðsdómi Reykjavíkur.
Megna varð gjaldþrota árið 2022 og námu lýstar kröfur í þrotabúið tæplega 428 milljónum króna. Að frádregnum skiptakostnaði var ráðstafað upp í lýstar sértökukröfur kr. 4.697.392, upp í búskröfur kr. 14.594.475 og upp í veðkröfur kr. 26.356.523. Samtals nam úthlutun kr. 45.648.390 eða 10,68% af lýstum kröfum.
Megna hét áður Glerborg en í febrúar 2021, ári fyrir gjaldþrotið, seldi fyrirtækið gler- og speglastarfsemi sína auk vörumerkisins yfir til Íspan og tók upp nafnið Megna. Var ætlunin að einbeita sér að sértækari þjónustu, til að mynda gluggalausnum fyrir verktaka. Rúnar Árnason, framkvæmdastjóri Megna, sagði Covid-19 faraldurinn vega meginástæðu fyrir gjaldþrotinu, eins og DV greindi frá á sínum tíma:
„Tap á rekstrinum er margþætt. Covid-19 hægði á öllu í langan tíma eins og flestum er ljóst. Covid-19 hægði og/eða stoppaði framleiðslu okkar, sama gilti um flutning til landsins. Miklar tafir kosta mikla peninga. Miklar og óvæntar erlendar kostnaðarverðshækkanir eru ein afleiðingin til viðbótar. Vogun tapar, launahækkanirnar miklu höfðu neikvæð áhrif og munu gera til lengri tíma. Allt þetta tekur í,“ sagði Rúnar í viðtali við Morgunblaðið.
Báðir mennirnir neituðu sök en hinn sakborningurinn vísaði á Rúnar um ábyrgð á daglegum rekstri og fjármálastjórn Megna ehf, sem framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Hafi hann borið ábyrgð á skilum á innheimtum virðisaukaskagtti og afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda. Rúnar lýsti hins vegar alfarið sömu ábyrgð á hendur samstarfsmanni sínum.
Samstarfsmaðurinn greindi frá því að helstu verkefni hans hafi falist í því að halda utan um færslu bókhalds, greiðslu launa, gerð greiðsluáætlana og innheimtur. Einnig hafi hann séð um skil á virðisaukaskattsskýrslum og skilagreinum vegna staðgreiðslu og greiðslu þeirra gjalda til ríkissjóðs. Sagði hann að Rúnar hefði tekið ákvarðanir um allar stærri greiðslur, þar á meðal skattskil.
Dómari taldi út frá fyrirliggjandi gögnum í málinu erfitt að slá því föstu hver hafi verið raunveruleg aðkoma samstarfsmannsins að skattskilum Megna ehf og hver hafi verið eiginleg verkaskipting milli hans, Rúnars og stjórnarfélagsins. Var samstarsfmaðurinn látinn njóta vafans og sýknaður.
Ábyrgð Rúnars taldist hins vegar fullsönnuð og var hann sakfelldur fyrir meiriháttar skattalagabrot í rekstri félagsins.
Var hann dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu rúmlega 156 milljóna króna sektar í ríkisstjóðs.
Ítarlegan dóm í málinu mál lesa hér.