

„Umræðan um húsnæðismarkaðinn á undanförnum mánuðum hefur að mestu verið neikvæð. Algengt er að heyra að markaðurinn sé „ónýtur“, „lokaður fyrir ungt fólk“ og að „stjórnvöld og bankar geti ekki gripið inn í með árangri“. Slíkar fullyrðingar hafa orðið áberandi í opinberri umræðu þar sem margir virðast endurtaka sömu neikvæðu skilaboðin hver eftir annan,“ segir Kjartan Örn Sigurðsson, forstjóri Ormsson hf, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Hann segir að ástandið sé í raun miklu betra en þessi lýsing gefur til kynna:
„Raunin er þó jákvæðari en margir ætla. Þrátt fyrir háa vexti og hátt húsnæðisverð hafa orðið verulegar breytingar á markaðnum sem gera fyrstu kaupendum og fleirum kleift að koma þaki yfir höfuðið. Þróunin er því ekki eins svört og hún hefur verið teiknuð upp í almennri umræðu.“
Kjartan hefur með lestri gagna og könnun fjármagnslíkana komist að því að mun betri mynd blasi við fyrstu kaupendum á markaðnum en haldið hefur verið fram.
Í fyrsta lagi þurfi mun lægri útborgun en áður. Fyrstu kaupendur hafi áður þurft að greiða 20-25% í útborgun en í dag þurfi þeir aðeins 10% eigið fé. Nefnir hann sem dæmi að kaup á 50 milljóna króna íbúð hefðu áður krafist yfir 10 milljóna króna í útborgun en í dag dugi 5 milljónir eða minna ef nýttur sé séreignarsparnaður.
Kjartan nefnir einnig samfjármögnunarkerfi sem hafi tekið við af hlutdeildarlánum, það opni markaðinn fyrir fólki sem áður hafði ekki möguleika á að kaupa sér fasteign: „Kerfið virkar þannig að kaupandi leggur fram 10%, sjóður leggur fram 20% og eignast hlut í íbúðinni, kaupandi þarf því aðeins að taka 70% bankalán, í stað 80-85% áður,“ segir Kjartan og segir þetta þýða minni greiðslubyrði, hraðari inngöngu og meiri sveigjanleika.
Kjartan bendir á að kaupmáttur heimila fari vaxandi og vextir séu byrjaðir að lækka. Fasteignir séu vissulega dýrar en markaðurinn sé samt ekki lokaður. Fasteignaverð á Íslandi sé sambærilegt við það sem gengur og gerist í borgum N-Evrópu. Íbúðir séu „aðgengilegar“ með þeim úrræðum sem í boði eru og vill Kjartan meina að það hafi sjaldan eða aldrei verið jafn raunhæft að eignast íbúð á Íslandi og núna.