

Miklar truflanir urðu á mörgum vefsíðum á Íslandi í gær og lágu margar niðri klukkutímum saman ,,Það er ljóst að truflanir hjá Cloudflare hafa haft áhrif víða á Íslandi síðasta sólarhringinn. Við hjá Varist urðum vör við þetta strax í gærmorgun. Enda ekki skrítið þar sem um fjórðungur alls Internetsins fer gegnum Cloudflare. Svo hef ég heyrt frá ýmsum um að gervigreindirnar ChatGPT og Claude séu ekki til viðtals þessa stundina. Margir hafa því þurft að koma sínu efni frá sér með eigin orðum síðasta sólarhringinn,“segir Finnbogi Finnbogason, tæknistjóri hjá netöryggisfyrirtækinu Varist.
Varist vinnur með stórum netöryggisfyrirtækjum á borð við Cloudflare og tekur hlutverk sitt mjög alvarlega sem birgir að sögn Finnboga. ,,Við höldum úti vörnum gegn spilliforritum og verjum til dæmis pósthólf hjá tæplega 2 milljörðum notenda. Þó svo að vefsíðan okkar hafi legið niðri á tímabili í gær vegna vandamálanna hjá Cloudflare, þá hefur dreifikerfi okkar sem betur fer ekki orðið fyrir neinum truflunum. Viðskiptavinir okkar fá því áfram stöðugan straum af uppfærslum gegn nýjustu spilliforritunum hverju sinni,“ segir hann.
Ástæðan fyrir þessum truflunum virðist enn óljós en Finnbogi segir að Varist útiloki alls ekki að um einhvers konar árás sé að ræða. Vissulega eru tæknivandamál eitthvað sem geta komið upp hjá hverjum sem er, en truflanir af þessari stærðargráðu eru vanalega mjög skammlífar. Þetta er því óvenjulegt að mínu mati.“