
DV fékk í gær ábendingu þess efnis að maður hefði fundist þungt haldinn í miðborginni fyrr í mánuðinum og væri haldið sofandi á sjúkrahúsi. Meðal áverka á manninum hefðu verið brotin andlitsbein. Maðurinn er íslenskur samkvæmt heimildum.
Er DV bar málið undir rannsóknarsvið lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var atvikið staðfest. Eiríkur Valberg lögreglufulltrúi segir í samtali við DV: „Ég get staðfest við þig að það fannst maður með skerta meðvitund í miðbænum. Hann er á sjúkrahúsi, hann er þungt haldinn en ekki í lífshættu.“
Aðspurður segist Eiríkur ekki hafa upplýsingar um hvort manninum sé enn haldið sofandi á sjúkrahúsinu.
„Rannsókn er bara í fullum gangi hjá okkur,“ segir hann og staðfestir að lögreglan hafi mann grunaðan um árásina. „En það hefur enginn formlega fengið réttarstöðu sakbornings ennþá.“
Eiríkur staðfestir að bæði brotaþoli og sá sem grunaður er um árásina séu íslenskir. Hann segir að maðurinn hafi fundist á Laugavegi, aðfaranótt föstudagsins 7. nóvember, eða fyrir um 12 dögum. Sem fyrr segir er hann enn þungt haldinn.
Aðspurður segir Eiríkur að rannsókn málsins miði vel og allt stefni í að lögreglan leysi málið.