

Roy Keane lét í sér heyra eftir 2-0 sigur Englands á Albaníu í lokaumferð undankeppninnar og gagnrýndi miðjumanninn Adam Wharton fyrir frammistöðu hans í Tirana.
England kláraði undankeppnina með fullu húsi stiga og fékk ekki á sig mark, en þrátt fyrir 2-0 sigur, þar sem Harry Kane skoraði tvö mörk undir lokin fannst Keane að Wharton hefði mátt sýna meira.
Wharton, 21 árs leikmaður Crystal Palace, fékk sinn fyrsta leik á meðal byrjunarliðsmanna en var tekinn af velli á 75. mínútu. Hann var einnig einn þeirra sem fengu gula spjaldið, ásamt Jude Bellingham.

Keane, sem er þekktur fyrir að segja sína skoðun, sagði í útsendingu ITV að Wharton væri „smá mjúkur“ og þyrfti að herðast ef hann ætti að festa sig í sessi á hæsta stigi.
„Ég hef gaman af Adam Wharton,“ sagði Keane.
„Margir miðjumenn í dag hugsa fyrst: ‘Get ég spilað aftur eða til hliðar?’ Hann horfir fyrst fram á við og það er styrkur.“
„En hann þarf að setja meiri kröfur á aðra. Hann er aðeins of mjúkur, þarf að öskra á menn: ‘Gefðu mér boltann!’ Ég gerði það alltaf. Settu kröfur á liðsfélagana.“