

Harpa birti færslu á Facebook-síðu sinni í morgun og veitti hún DV góðfúslegt leyfi til að fjalla um hana.
„Stóri strákurinn minn hann Pedro Snær Riveros (Piti) er búinn að vera týndur síðan í byrjun ágúst. Hann sagðist vera á leið að vinna á skipinu Allure of the Seas sem kokkur. Það hefur ekki heyrst til hans síðan. Ef þið eruð á vappi um heiminn gætuð þið haft augun opin. Alþjóðadeild lögreglunnar er með málið en ekkert hefur komið út úr því enn. Læt fylgja með myndir síðan ég hitti hann í Barcelona í lok júlí, rétt áður en hann hvarf,” segir Harpa.
Hún tekur fram að Pedro sé mjög heilbrigður drengur, ekki í neinu rugli og smakki ekki einu sinni áfengi.
Í samtali við DV segir hún að skipið hafi lagt af stað frá Barcelona í sex mánaða siglingu í byrjun ágúst og hann hafi ætlað að fara um borð þar.
Pedro hefur aðallega verið búsettur á Spáni en bjó þó á Íslandi á unglingsárunum.
Harpa segir að hún hafi verið í reglulegum samskiptum við son sinn og það sé mjög ólíkt honum að láta ekki heyra frá sér. Tekur hún fram að hvorki vinir né fjölskylda hafi heyrt frá honum.