fbpx
Miðvikudagur 12.nóvember 2025
Fréttir

Varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins gagnrýnir fórnarlambsumræðu illa upplýstra um sjávarútveginn og kennir hruninu um

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 12. nóvember 2025 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins rekur neikvæða umræðu um íslenskan sjávarútveg til efnahagshrunsins 2008 í grein sem hann ritar í Morgunblaðið í dag gegn hækkuðum veiðigjöldum. Virðist þingmaðurinn ekki meðvitaður um að kvótakerfið svokallaða var nú þegar orðið umdeilt árið sem hann fæddist og þegar veiðigjöldunum var komið á fór strax í gang umræða um að þau mættu vera hærra.

„Þegar ég var peyi var mér kennt að fýlan í loftinu væri peningalykt því bræðslurnar væru að búa til verðmæti. Lærði ég því nokkuð fljótt að hér væri verið að ræða um lifibrauð fólks og að samfélagið nyti góðs af því að í sveitarfélaginu mínu væri sterkur sjávarútvegur,“ skrifar varaþingmaðurinn Gísli Stefánsson. Hann rekur neikvæða umræðu um sjávarútvegin á árinu til orðræðu sem hann segir hafa orðið til eftir hrunið og segir hann á vegum hóps fólks sem hafi takmarkaðan skilning á mikilvægi sjávarúvegs.

„Umræðan í sumar og í raun undanfarin ár hefur hins vegar mikið snúið til þeirrar orðræðu sem varð til upp úr hruninu 2008. Ákveðinn hópur sem hefur takmarkaðan skilning á mikilvægi sjávarútvegs og hvað hann hefur að segja í atvinnulífi og útflutningstekjum þjóðarinnar hefur haldið á lofti þessari fórnarlambsumræðu sem einkennist af spurningunni: „Af hverju fæ ég ekki mitt af auðlindinni?“ Staðreyndin er þó sú að kerfið í kringum greinina skaffar þjóðarbúinu nú þegar gríðarlegar tekjur í formi virðisauka, tekjuskatts, ýmiskonar furðulegra gjalda sem ríkið tekur af hinu og þessu sem og veiðigjalda sem þegar eru greidd af auðlindinni.“

Gísli rekur að fiskveiðikerfið eigi að heita sjálfbært og ein forsenda þess sé þekking á stöðu fiskstofna og lífríkis í sjó. Markmið laga um veiðigjald sé meðal annars að tryggja fjármagn til rannsókna á auðlindinni. Hann telur þessu markmiði þó ekki náð þar sem framlag ríkisins til rannsókna sé ekki í nokkru samræmi við arðinn sem ríkissjóður tekur sér af auðlindinni. Afleiðing aukinna veiðigjalda verði óhjákvæmilega sú að minni fyrirtæki munu gefast upp og eignarhaldið færast á færri hendur með tilheyrandi vanda fyrir smærri sveitarfélög landsins. Úthlutningstekjum sem verða til á landsbyggðinni verði ráðstafað af kjörnum fulltrúum í Reykjavík. Þetta sé skekkja sem verði ekki leiðrétt nema valdhafar átti sig á því hvaðan peningarnir koma og hvað þeir hafa í raun kostað.

Kvótakerfið umdeilt löngu fyrir hrunið

Varaþingmaðurinn er fæddur árið 1987. Nokkrum mánuðum áður en hann kom í heiminn birtist frétt í Alþýðublaðinu um fólksflótta frá Austurlandi. Undirfyrirsögnin var: „Landbúnaðarstefnan í rúst. Kvótakerfið hatað. Byggðamálin í ólestri og peningarnir streyma til Reykjavíkur.“

Á meðan varaþingmaðurinn sleit barnaskónum var þegar farið að tala með niðrandi hætti um sægreifa og kvótakónga í þjóðfélagsumræðunni. Hagfræðingar skrifuðu innblásnar greinar um nauðsyn þess að ná tökum á kerfinu til að tryggja þjóðinni betur arð af auðlind sinni. Samtök um þjóðareign voru stofnuð árið 1997 en af því tilefni skrifaði þáverandi þingmaðurinn Svanfríður Jónasdóttir grein í Dag:

„Það á ekki að koma mönnum á óvart að nú skuli blásið til Samtaka um þjóðareign. Allir sæmilega skynugir menn hljóta að hafa áttað sig á því a það hefur nánast soðið á þjóðinni vegna þess óréttlætis sem í því felst að fámennum hópi skuli, án þess að gjald komi fyrir, afhent yfirráð yfir hinni sameiginlegu auðlind okkar, fiskimiðunum. Enda hefur það þráfaldlega komið fram í skoðanakönnunum að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar telur að taka beri upp veiðileyfagjald. Fólk horfir á réttlætisrökin. Í þessu máli nægja þau.“

Mannfræðingarnir Gísli Pálsson og Agnar Helgason rituðu í grein sem birtist í Skírni í apríl 1999:

„Það virðist hafa komið mörgum formælendum kvótakerfisins í opna skjöldu, að stór hluti landsmanna er mjög ósáttur við markaðsvæðingu fiskveiðiréttinda og margar afleiðingar hennar, sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni. Oft er gripið til gildishlaðinna merkimiða til að lýsa þeirri þróun sem átt hefur sér stað. Orð eins og „sægreifar“, „kvótakóngar“ og „leiguliðar“ hafa sett svip sinn á þjóðfélagsumræðuna. Erfitt hlýtur að vera að stjórna fiskveiðum á skynsamlegan og árangursríkan hátt á meðan harðvítugar deilur standa um grundvallarforsendur þess kerfis sem notast er við […] Mörgum ofbýður að fámennur hópur fólks geti safnað til sín aflaheimildum og auðgast á því einu að leigja þær frá sér“

Frjáls verslun árið 1997

Kallað eftir veiðigjaldi

„Það fer í taugar fólks, að svokölluð þjóðareign skuli ganga kaupum og sölum og jafnvel ganga í erfðir. Einnig sker í augu, að verðgildi seldra skipa fer meira eftir kvóta þeirra en blikki. Landssamband íslenzkra útvegsmanna er helzti málsvari andstöðunnar við veiðileyfagjald. Það hefur smám saman verið að fá á sig stimpil klúbbs sægreifa, sem lifi á forgangi að þjóðareign og illri meðferð þjóðareignar,“ sagði þáverandi ritstjóri DV, Jónas Kristjánsson, í leiðara sínum 4. maí 1995 þar sem hann fjallaði um vaxandi stuðning við veiðigjald.

Veiðigjaldi var upphaflega komið á árið 2002, en ekki voru allir sáttir við útfærsluna. Svanfríður Jónasdóttir sagði þá í samtali við DV að veiðigjöldin væru ekkert annað en tilraun til sátta við hagsmunasamtök útgerðarmanna, LÍÚ. Samhliða yrðu felld niður önnur gjöld sem útgerðin greiddi áður svo að ríkisstjórninni hefði „klúðrað“ að ná sátt við þjóðina um kvótakerfið. Samkvæmt könnun Gallup á þessum tíma voru 86% þjóðarinnar óánægð með kvótakerfið og 75% vildu taka upp veiðigjald.

Þetta eru aðeins fáein dæmi sem sýna að orðræðan sem varaþingmaðurinn vísar til nær töluvert lengra aftur í tímann en til efnahagshrunsins. Lengi hefur verið kallað eftir því að þjóðin njóti arðs af auðlind sinni. Morgunblaðið, þá undir ritstjórn Styrmis Gunnarssonar, lýsti yfir stuðningi við veiðigjöldin en gagnrýndi að þau væru ekki hærri. Fljótlega eftir að gjaldið var samþykkt var skrifað í leiðara blaðsins: „Margir talsmenn gjaldtöku í sjávarútvegi eru óánægðir með að ekki skyldu tekin stærri skref að þessu sinni. Um það má deila endalaust. Höfuðmáli skiptir að grundvallaratriðið um auðlindagjald í sjávarútvegi hefur náð fram að ganga. Ísinn hefur verið brotinn. Eftirleikurinn verður auðveldari.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Góð tíðindi fyrir meinta Gilgo-raðmorðingjann Rex Heuermann

Góð tíðindi fyrir meinta Gilgo-raðmorðingjann Rex Heuermann
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Ásakanir um einelti á árshátíð laganema í HR – „Þetta var mjög niðurlægjandi“

Ásakanir um einelti á árshátíð laganema í HR – „Þetta var mjög niðurlægjandi“
Fréttir
Í gær

Bónus og viðskiptavinir styrkja Krabbameinsfélagið um 5 milljónir króna

Bónus og viðskiptavinir styrkja Krabbameinsfélagið um 5 milljónir króna
Fréttir
Í gær

Betur fór en á horfðist hjá ungum börnum í Reynisfjöru

Betur fór en á horfðist hjá ungum börnum í Reynisfjöru