

Fjallað er um þetta í Morgunblaðinu í dag og er í fréttinni vísað í svar skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í ráðinu. Á tíu ára tímabili nema útgjöld vegna starfslokasamninga stjórnenda 370 milljónum króna.
Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við Morgunblaðið að annar samningurinn hafi spannað 15 mánuði en hinn 19 mánuði. Það lýsi sögulegum stjórnunarvanda á skóla- og frístundasviði þegar ítrekað þarf að gera dýra starfslokasamninga til að koma stjórnendum frá.
Þá gagnrýnir Marta það í samtali við blaðið að kjörnir fulltrúar þurfi að ganga sérstaklega á eftir því að fá upplýsingar um þessi mál og segir skort á gegnsæi ríkja í kerfinu.
„Þegar málaflokkurinn er vanfjármagnaður og þá ekki síst leikskólahlutinn, þá finnst mér þessar greiðslur vegna starfslokasamninga ansi háar,“ segir Marta meðal annars en nánar er fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.