

Yves Bissouma miðjumaður Tottenham varð fyrir því óláni að 800 þúsund pundum var stolið af honum á dögunum þegar óprúttinn aðili komst inn á bankareikning hans hjá Coutts-bankanum. Frá þessu greinir The Sun.
Bissouma, 29 ára og miðjumaður Tottenham, tapaði um 834 þúsund pundum (um 145 milljónum króna) á tímabilinu frá september 2022 til júní 2024.
Coutts-bankinn er þekktur fyrir að þjónusta auðmenn, frægt fólk og jafnvel bresku konungsfjölskylduna.

Maurice Gomes, 31 ára, hefur verið ákærður fyrir tvö brot tengd fjársvikum í málinu. Hann var handtekinn eftir að Bissouma óskaði eftir rannsókn, og ákært var í október. Hámarksrefsing fyrir hvort brot er allt að 10 ára fangelsi.
Samkvæmt gögnum dómstóla á Gomes að hafa „vísvitandi“ millifært fjármuni af bankareikningi Bissouma án vitundar eða samþykkis leikmannsins til að auka eigin ávinning. Ekki er vitað hvaða tengsl eru á milli þeirra eða hvernig Gomes komst yfir aðgang að reikningnum.
Gomes býr í sex herbergja húsi í Enfield í Norður-London sem metið er á um 1,4 milljónir punda. Hann á að mæta fyrir Highbury Corner dómstól í dag.
Bissouma, sem er landsliðsmaður Malí, gekk til liðs við Tottenham sumarið 2022 frá Brighton fyrir um 30 milljónir punda og er sagður á um 50 þúsund pundum í vikulaunum. Tottenham hefur ekki tjáð sig opinberlega um málið.