

Hin umdeilda græna bygging við Álfabakka í Breiðholti, oft kölluð Græna gímaldið, fær að standa áfram. Framkvæmdir verða ekki stöðvaðar og húsið ekki rifið. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna kæru Búseta sem er eigandi fjölbýlishúss, við Árskóga, sem byggingin er afar nálægt eins og fram hefur komið í fréttum.
Vöruhúsið hefur verið nokkuð í fréttum og vakið mikla óánægju meðal íbúa í fjölbýlishúsinu og annarra íbúa í nágrenninu. Forystufólk Reykjavíkurborgar hefur viðurkennt að mistök hafi verið gerð þegar heimilað var að hafa bygginguna svona nálægt fjölbýlishúsinu. Einnig hefur vakið óánægju að kjötvinnsla verður rekin í hluta hins umdeilda húss.
Búseti kærði synjun byggingarfulltrúa á að afturkalla byggingarleyfið fyrir bygginguna og að hún yrði fjarlægð og allt jarðrask afmáð.
Byggingarleyfið var upphaflega veitt árið 2023 en á því hafa síðan verið gerðar nokkrar breytingar. Búseti krafðist þess síðasta vor að byggingarleyfið yrði afturkallað og byggingin rifin en byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar varð ekki við því og var sú synjun þá kærð til nefndarinnar.
Vildi Búseti meina í sinni kæru að starfsemi kjötvinnslu í húsinu samræmdist hvorki aðalskipulagi borgarinnar né deiliskipulagi svæðisins. Sagði félagið veitingu byggingarleyfisins hafa byggt á ófullnægjandi gögnum og ekki hafi verið metið á fullnægjandi hátt þau áhrif sem byggingin muni óneitanlega hafa á íbúa. Einnig hafi skort á upplýsingar um notkun mannvirkisins þegar byggingarleyfið var veitt upphaflega.
Þetta eru þó aðeins nokkur dæmi af þeim fjölda athugasemda sem Búseti gerði við allt málið í sinni kæru.
Reykjavíkurborg sagði meðal annars í sínum andsvörum að samkvæmt lögum væri byggingarfulltrúa heimilt að uppfylltum skilyrðum að afturkalla byggingarleyfið en það væri ekki hægt að þvinga hann til þess. Honum væri enn fremur ekki skylt að beita þvingunarúrræðum þótt hann hefði heimild til þess.
Lögin heimiluðu ekki afturköllun ef það myndi valda tjóni og ljóst væri að afturköllun byggingarleyfis og niðurrif fasteignarinnar myndi valda byggingaraðila og leigutaka tjóni. Eftir að byggingarleyfi hafi verið veitt hafi byggingin verið reist í samræmi við samþykkta aðal- og séruppdrætti. Miklu fé hafi verið ráðstafað til framkvæmdarinnar og leyfishafi skuldbundið sig gagnvart lánveitanda. Áður en byrjað hafi verið að reisa bygginguna hafi verið gengið frá samningi við leigutaka og byggingin sérhönnuð í kringum þarfir hans. Leyfishafi hafi haft réttmætar væntingar um að geta afhent leigutaka bygginguna og haft tekjur af henni. Ef byggingarleyfið yrði afturkallað myndi það valda miklu tjóni, upp á marga milljarða króna. Nú þegar nemi tjón vegna tafa á verkefninu nokkrum hundruðum milljóna, en þá sé miðað við tjón leigusala og leigutaka.
Borgin vildi enn fremur meina að engir þeir annmarkar væru á ákvörðun byggingarfulltrúa sem vörðuðu ógildingu hennar. Krafa Búseta um stöðvun framkvæmda og niðurrif hafi komið fram löngu eftir að framkvæmdir hafi verið hafnar og komnar vel á veg og byggingaraðilinn hefði þar af leiðandi réttmætar væntingar um að fá að klára verkið og haldið framkvæmdum áfram í góðri trú. Því andmælti Búseti og benti á að upplýst hefði verið um andstöðu félagsins og íbúa í nóvember 2024 og þá hafi aðeins burðargrind hússins verið risin og byrjað að setja veggeiningar í hana. Því hafi framkvæmdunum verið haldið áfram í vondri trú.
Sagði borgin einnig að byggingin væri í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag.
Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir að þar sem Búseti hafi farið fram á stöðvun framkvæmda með bréfi til byggingarfulltrúa í nóvember 2024 verði að telja að félagið hafi í síðasta lagi á þeim tímapunkti verið upplýst um ákvörðun byggingarfulltrúa um samþykkt byggingarleyfisins, sem og um eðli og umfang framkvæmdanna. Frá og með þeim tíma hafi félagið samkvæmt stjórnsýslulögum haft þriggja mánaða kærufrest en í apríl 2025 hafi það fyrst farið fram á ógildingu byggingarleyfis. Því sé of seint að taka byggingarleyfið sjálft til kærumeðferðar nema með samþykki annarra málsaðila og það sé ekki fyrir hendi.
Nefndin gagnrýnir að deiliskipulagi fyrir svæðið þar sem hin umdeilda græna bygging stendur hafi verið breytt tólf sinnum frá árinu 2009 og þar á meðal séu breytingar sem varði umrædda við Álfabakka. Skipulag sé bindandi bæði fyrir stjórnvöld og almenning um framtíðarnot tiltekins svæðis. Því sé almennt ætlað að gilda um lengri tíma og verði almenningur að geta treyst því að festa sé í framkvæmd skipulags. Verði að telja að svo tíðar skipulagsbreytingar séu til þess fallnar að skerða réttaröryggi í meðferð skipulagsmála, sem sé meðal þeirra markmiða sem skipulagslögum sé ætlað að tryggja.
Nefndin tekur ekki undir það með Búseta að byggingin samræmist ekki deiliskipulagi svæðisins eða aðalskipulagi borgarinnar.
Nefndin segir þó að annmarki hafi verið á málinu þegar byggingarleyfi var gefið út án þess að lægi fyrir mat Skipulagsstofnunar um hvort kjötvinnslan sem á að vera í hluta hússins þyrfti að ganga undir umhverfismat en úr því hafi verið bætt. Nú liggi fyrir sú niðurstaða stofnunarinnar að ekki sé þörf á umhverfismati.
Þegar kemur að því hvort starfsemi kjötvinnslu í húsinu samræmist aðalskipulagi Reykjavíkur bendir nefndin á að Skipulagsstofnun telji að svo sé ekki en borgin hafi andmælt því. Nefndin tekur ekki afstöðu til þess en minnir á að meðal skilyrða starfsleyfis fyrir slíkan rekstur sé að hann samræmist skipulagi.
Þegar kemur að kröfu Búseta um afturköllun byggingarleyfisins segir nefndin að byggingin sé nánast fullgerð. Þegar langur tími líði frá leyfisveitingu þurfi þeim mun veigameiri ástæður til ógildingar og komi þá helst almannahagsmunir til greina, en þeim sé ekki til að dreifa í málinu þrátt fyrir þá verulegu grenndarhagsmuni sem Búseti hafi vísað til. Fallast verði einnig á það að afturköllun og stöðvun byggingarframkvæmda myndi valda byggingaraðila verulegu tjóni.
Því séu ekki nægileg rök til þess að fella ákvörðun byggingarfulltrúa, um að neita að afturkalla byggingarleyfið, úr gildi þótt undirbúningi byggingarleyfisins virðist um margt hafa verið áfátt, m.a. sökum þess að þar hafi ekki verið fjallað nægilega um það hvaða starfsemi yrði í hinu umdeilda mannvirki. Vísar nefndin einnig til þess að hún taki ekki undir það með Búseta að svo mikil frávik hafi verið frá aðaluppdráttum byggingarinnar að það valdi nægilegum annmörkum til að fella byggingarleyfið úr gildi. Ákvörðun um að fella byggingarleyfið ekki úr gildi hafi verið haldin annmörkum í upphafi en svo sé ekki lengur.
Er því ekki útlit fyrir annað en að byggingin sem nefnd hefur verið Græna gímaldið verði kláruð og fái að standa.