

Eins og fram kom í frétt DV.is í morgun ríkir ákveðin óvissa um hvað gerist því tölvuspánum sem reiknaðar eru í Evrópu og Bandaríkjunum ber ekki alveg saman.
Sjá einnig: Útlit fyrir talsverða snjókomu á höfuðborgarsvæðinu í fyrramálið
Sigurður ræddi þetta í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Hann segir að þær spár sem við notum mest, frá Reiknimiðstöð evrópskra veðurstofa, séu að gera ráð fyrir mikilli ofankomu í nótt og í fyrramálið. Bandaríska spáin geri aftur á móti ráð fyrir mun minni úrkomu.
Fari svo að evrópska spáin rætist segir Sigurður að þá muni byrja að snjóa fyrst í kvöld á höfuðborgarsvæðinu og ákefðin verði meiri eftir því sem líður á nóttina. Hún verði mest um klukkan fjögur í nótt og það haldi svo áfram að snjóa út morgundaginn.
„Það er hörkuvetur í þessu ef þessir reikningar reynast réttir,” sagði hann í viðtalinu.
Ameríska spáin gerir ráð fyrir hófstilltara vetrarveðri, að sögn Sigurðar. „Hún gerir ráð fyrir að þetta verði éljaloft sem nuddast við strendur Reykjaness og verði fyrst og fremst úti á sjónum,” segir hann og bætir við að spáin geri ráð fyrir að éljaloftið komi inn á höfuðborgarsvæðið á miðvikudag. „Úrkoman er miklu minni í amerísku spánni,” segir hann.
Hann segir að ef horft sé til meðaltala þá komi fyrsti snjórinn á höfuðborgarsvæðinu yfirleitt í kringum 26. október og að því leyti komi tilvonandi snjókoma – hversu mikil sem hún verður – ekki endilega á óvart.