

Edda Sif Pálsdóttir og Gunnar Birgisson, íþróttafréttamenn á RÚV, voru gestir Helga Fannars Sigurðssonar í Íþróttavikunni hér á 433.is þennan föstudaginn.
Halldór Árnason var á dögunum látinn fara frá Breiðabliki. Þrátt fyrir að hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn fyrir ári síðan og komið liðinu í Sambandsdeildina í ár var honum engin miskunn sýnd og er Ólafur Ingi Skúlason tekinn við í hans stað.
„Þetta virkaði svolítið furðulegt, svo ég tali fyrir sjálfa mig. Það er stutt síðan þessi samningur var framlengdur. Maður hefði kannski haldið að hann fengi að klára vikuna, án þess að ég þekki allar ástæðurnar þarna að baki,“ sagði Edda, en Halldór var nýbúinn að skrifa undir þriggja ára samning.
Það var mikið fjallað um óeiningu innan Blika á bak við tjöldin um samninginn sem Halldór skrifaði undir í ágúst.
„Ég veit ekki hvaða orð maður á að nota, en það er eins og það séu einhverjir samskiptaörðuleikar og þetta virkar hálf vandræðalegt út á við. Það er einhver vandræðagangur, maður veit ekki hver er að ákveða hvað,“ sagði Edda enn fremur.
Gunnar benti á viðtal sem Flosi Eiríksson formaður knattspyrnudeildar fór í við Fótbolta.net að morgni brottreksturs. Þar fór hann eins og köttur í kringum heitan graut og mátti lesa úr orðum hans að dagar Halldórs væru taldir.
„Ég held að það þurfi ekki að kafa neitt allt of djúpt til að sjá að þarna var búin að eiga sér stað þessi breyting. Eflaust hefði verið hægt að gera hlutina örlítið betur þar,“ sagði Gunnar.
„Allt er breytingum háð. Ég skynjaði ekki frá leikmönnum að það væri komið eitthvað vantraust á Halldór. Hlutirnir bara hafa ekki verið að detta með þeim og frammistaðan kannski ekki staðið undir væntingum. En eftir stendur að liðið er í deildarkeppni Sambandsdeildar og í dauðafæri á að koma sér í Evrópukeppni.“
Nánar í spilaranum.