fbpx
Sunnudagur 26.október 2025
Fréttir

Dæmdur fyrir ofbeldi í óþökk brotaþolans eftir að til stimpinga kom vegna hleðslutækis

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 26. október 2025 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karlmaður hefur verið dæmdur til að sæta fangelsi í 60 daga, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir ofbeldi gegn fyrrverandi eiginkonu sinni. Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 9. október, þrátt fyrir að brotaþoli hafi skorast undan því að gefa skýrslu í málinu og auk þess óskað eftir að málið yrði fellt niður en brotaþoli og ákærði eru aftur tekin saman og komin í sambúð.

Brotið átti sér stað þann 3. desember árið 2023 en þá hafði lögregla verið kölluð út vegna heimilisofbeldis. Á vettvangi hittu lögreglumenn brotaþola sem sagði fyrrverandi eiginmann sinn hafa ráðist á hana fyrir utan húsið og ekið í burtu. Hafði hún beðið sinn fyrrverandi um að kaupa mat fyrir hundinn sinn. Þegar maðurinn kom með vörurnar krafðist hann þess að konan afhenti sér hleðslutækið af símanum hennar þar sem hún þyrfti ekki að vera í sambandi við umheiminn. Hann fór svo inn og sótti hleðslutækið en hún reyndi að ná því af honum. Fyrir utan útidyrnar tók hann í hægri handlegg hennar og aftan í fatnað hennar, hristi hana til og hrinti henni á hurðina. Næst settist hann inn í bíl sinn, en hún fór á eftir að reyna að ná hleðslutækinu. Þá ók maðurinn af stað og konan rétt náði að víkja sér undan. Konan var með áverka eftir atvikið. Hún lýsti því að hafa sætt líkamlegu, andlegu og fjárhagslegu ofbeldi af hálfu mannsins í langan tíma.

Nágrannakona konunnar varð vitni að atvikinu, en það var hún sem hringdi á lögregluna.

Neitaði sök

Brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu og lýsti þar líkamlegu, andlegu og fjárhagslegu ofbeldi af hálfu mannsins. Meðal annars lýsti hún því að laun hennar væru greidd inn á bankareikning mannsins og að hann hefði selt bíl hennar til að einangra hana. Nokkrum mánuðum áður hafi hann ógnað henni og dóttur hennar með hníf. Hún hafði tilkynnt það atvik til lögreglu en féll frá kæru vegna pressu frá fyrrverandi eiginmanninum.

Maðurinn neitaði sök og sagði konuna bera ábyrgð á atvikinu. Hún ætlaði sér að skaða nafn hans í þjóðfélaginu og hafi ítrekað hótað því að fara í fjölmiðla með málið. Hún hafi áður sakað hann um ofbeldi en hið rétta væri að hún hefði ráðist á hann. Hann neitaði líkamlegu, andlegu og fjárhagslegu ofbeldi og tók fram að hann og brotaþoli ætluðu að gifta sig aftur enda væru 70 prósent af lífi þeirra saman gott.

Breyttur framburður

Við þingfestingu málsins lagði verjandi mannsins fram yfirlýsingu frá brotaþola þar sem hún sagði ákæru hafa komið sér á óvart. Henni og ákærða hefði lent saman og stimpingar orðið á milli þeirra. Þau hefðu bæði lært af þessu og tekið samband sitt til gagngerðrar endurskoðunar þar sem ást, gagnkvæm virðing og umhyggja sé í fyrirrúmi. Þau séu trúlofuð að nýju, skráð í sambúð og hafi nýlega stofnað nýtt yndislegt heimili. Hún óskaði þess af öllu hjarta að dómurinn felldi málið niður.

Maðurinn greindi frá því fyrir dómi að þau hefðu þekkst alla ævi en samband milli þeirra hafist fyrir rúmum fimm árum. Þau hefðu svo gifst árið 2021 en vegna vandræða í hjónabandinu hefðu þau skilið ári síðar. Nú væru þau þó trúlofuð aftur og nýbúin að kaupa draumahúsið sitt. Lýsingar konunnar hjá lögreglu væru miklar ýkjur. Samband þeirra væri gott í dag og fyrirgefningin stærsti hlutinn. Hann hefði vissulega gripið í hana en það gerði hann til að styðja sig enda óstöðugur eftir að hafa fengið heilablóðfall.

Brotaþoli skoraðist undan því að veita skýrslu í málinu og sagði mann sinn ekki vilja neinum illt og að hann væri nú orðinn eins og nýr maður. Hann væri besti maður sem hún hefði kynnst og vildi öllum vel.

Dómari taldi að meta þyrfti breyttan framburð konunnar með hliðsjón af því að hún sé nú í sambúð með ákærða. Vitni var að atvikinu, myndir til af áverkum og eins lá fyrir framburður konunnar í kjölfar atviksins og skýrslugjöf hjá lögreglu. Þetta dugði til sakfellingar. Maðurinn hafði einu sinni áður gerst sekur við lög, en hann gerði á árinu 2016 lögreglustjórasátt fyrir umferðarlagabrot, þar með talið akstur undir áhrifum. Þótti dómara hæfileg refsing vera 60 daga fangelsi skilorðsbundið til tveggja ára.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Engin þjóðarvá vegna bilunarinnar í Norðuráli – „Vælið er nánast eins og ósjálfrátt viðbragð við umhverfinu“

Engin þjóðarvá vegna bilunarinnar í Norðuráli – „Vælið er nánast eins og ósjálfrátt viðbragð við umhverfinu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðmundur segir að þetta sé krafan sem kvennahreyfingin gleymdi

Guðmundur segir að þetta sé krafan sem kvennahreyfingin gleymdi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landsréttur dæmir litháískan stjórnmálamann til skilorðsbundinnar fangelsisvistar – Í slagtogi við þekktan síbrotamann

Landsréttur dæmir litháískan stjórnmálamann til skilorðsbundinnar fangelsisvistar – Í slagtogi við þekktan síbrotamann
Fréttir
Fyrir 2 dögum

María Sigrún ósátt við ummæli Dags: „Ég sé mig tilneydda til að bera hönd fyrir höfuð mér“

María Sigrún ósátt við ummæli Dags: „Ég sé mig tilneydda til að bera hönd fyrir höfuð mér“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Enn einn snúningurinn í húsnæðismálum Félags eldri borgara í Hafnarfirði – Ætla ekki að gefa Flatahraunið eftir

Enn einn snúningurinn í húsnæðismálum Félags eldri borgara í Hafnarfirði – Ætla ekki að gefa Flatahraunið eftir
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Gagnrýnir Kristrúnu fyrir skýrslu sem Katrín pantaði

Gagnrýnir Kristrúnu fyrir skýrslu sem Katrín pantaði