Ung móðir, Sara Líf Guðjónsdóttir, hefur birt opið bréf til Kópavogsbæjar og annarra stjórnvalda sem hafa með grunnskóla landsins að gera. Sonur hennar, sem er í öðrum bekk í grunnskóla í Kópavogi, hefur orðið fyrir stöðugu áreiti, líkamlegu ofbeldi og tilraunum til eignatjóns.
Í síðustu viku var drengnum hótað lífláti með hnífstungu árás af samnemanda sínum á skólalóð, á skólatíma. Hótaði umræddur nemandi að með mæta með hníf í skólann og stinga son Söru til bana. Hún kallar eftir því að skólinn fylgi verklagsreglum skrái atvik um ítrekað líkamlegt ofbeldi, slíkri skráningu sé ekki sinnt. Sara kallar eftir því að skólayfirvöld sýni ábyrgð og bregðist með faglegum hætti við ofbeldi nemenda:
„Aðdragandinn að þessu er langur og alvarlegur.
Í rúmt ár hef ég átt ótal símtöl og sent marga tölvupósta til kennara og stjórnenda skólans vegna stöðugs áreitis, líkamlegs ofbeldis og tilrauna til eignatjóns.
Í hvert skipti hef ég fengið loforð um að gripið yrði inn í, að tryggt yrði öryggi hans og fylgst betur með aðstæðum.
Engu af þessu hefur verið staðið við.
Ég óskaði eftir atvikaskráningu vegna ítrekaðs líkamlegs ofbeldis. Þegar ég fékk loks svar kom í ljós að engin skráning hafði átt sér stað, ekki þótti ástæða til að fylgja eigin verklagsreglum um slíka skráningu né tilkynna umrædd atvik til æðri stjórnvalda.
Ég skil vel að kennarar séu orðnir þreyttir á ástandinu og jafnvel hræddir, en ég velti því fyrir mér hvar þessi mál lenda, þar sem í of mörgum tilvikum fara þau ekki inn á borð sveitarfélaga né barnaverndar. Þau eru sett ofan í skúffu og haldið er í von um að ástandið lagist af sjálfu sér.
Hver ber ábyrgð á að bæði börn og kennarar séu öryggir, hvert er verklagið og afhverju er því ekki fylgt?
Aðgerðarleysið er algjört.“
Sara spyr hvort hún eigi að senda son sinn í skóla í þeirri von að samnemandinn láti ekki verða af hótun sinni.
„Er það raunverulega sú staða sem foreldrar í Kópavogi þurfa að sætta sig við árið 2025 — eða foreldrar á Íslandi yfir höfuð?“
Sara bendir á að það sem hún fari fram á sé ekki óraunhæft heldur aðeins það sem öllum börnum á að vera tryggt samkvæmt lögum:
„Réttinn til öruggs skólaumhverfis og að gripið sé inn í aðstæður áður en það er of seint.“
Sara skorar á Kópavogsbæ og önnur viðkomandi stjórnvöld að axla ábyrgð:
„Það er kominn tími til að Kópavogsbær og önnur stjórnvöld axli ábyrgð og tryggi að börn sem verða fyrir ofbeldi eða hótunum séu ekki þau sem þurfa að sitja heima, á meðan ekkert er gert. Nú eða að kennarar finni sig knúna til þess að segja upp vinnu sinni vegna hræðslu og ofbeldis.“