Tveir menn til viðbótar hafa verið handteknir í tengslum við morðið á söngvaranum og dæmda barnaníðingnum Ian Watkins í fangelsi í Bretlandi. Fyrir höfðu tveir menn verið handteknir og ákærðir fyrir morðið.
Eins og DV og fleiri miðlar greindu frá um miðjan mánuðinn var hinn velski Watkins, áður söngvari rokkhljómsveitarinnar Lostprophets, skorinn á háls í Wakefield fangelsinu í Bretlandi. Watkins var að afplána 29 ára fangelsisdóm vegna kynferðisbrota gegn börnum, allt niður í eins árs gömul, og vörslu barnakláms og dýrakláms.
Greint var frá því að tveir samfangar hans, hinn 25 ára Rashid Gedel, og hinn 43 ára Samuel Dodsworth, hafi verið handteknir og ákærðir fyrir morðið.
Nú hafa tveir aðrir fangar verið handteknir og grunaðir um aðkomu að morðinu. Hafa þeir ekki verið nafngreindir líkt og hinir tveir en samkvæmt rokkmiðlinum Blabbermouth er annar þeirra 23 ára og hinn 39 ára.
Kemur fram að þeir verði yfirheyrðir í dag, fimmtudaginn 21. október, og að því loknu verði þeir settir aftur í varðhald í Wakefield á meðan rannsókn málsins stendur yfir.