Selenskíj kom til Washington í síðustu viku til að óska eftir frekari hernaðaraðstoð frá Bandaríkjunum, á sama tíma og bæði Úkraínumenn og Rússar hafa lagt aukinn þunga í árásir á orkuinnviði hvors annras.
Samkvæmt frétt Financial Times, sem Daily Mail vísar til, þróaðist fundur leiðtoganna á föstudag hins vegar á annan veg en reiknað hafði verið með, eða úr samningaviðræðum í hávært rifrildi. Herma heimildir blaðsins að Trump og Selenskíj hafi skipst á hrópum inni á fundinum.
Trump á að hafa kastað kortum sem sýndu víglínur í Úkraínu til hliðar og krafist þess að Selenskíj afsalaði Rússum öllu Donbas-héraðinu eins og Rússar hafa farið fram á. Hann á jafnframt að hafa varað Selenskíj við og sagt berum orðum að „Pútín muni eyða þér“ ef hann hafni þessum kröfum.
Talað er um að svipuð spenna hafi ríkt á fundinum á föstudag og í febrúar þegar Trump og varaforseti hans, JD Vance, ræddu við Selenskíj á nokkuð harkalegum fundi sem verður að líkindum lengi í minnum hafður.
Selenskíj sagði á föstudag að hann væri svartsýnn á að friður myndi nást og ástæðan væri sú að Pútín Rússlandsforseti vilji ekki frið. „Þess vegna þarf að auka þrýsting á hann,“ sagði hann.