Eddie Howe segir að hann hafi elskað það þegar Nick Woltemade braut allar reglur og reyndi að taka bæði vítaspyrnurnar sem Anthony Gordon skoraði úr í 4-0 sigri Newcastle gegn Union SG í Brussel í fyrradag.
Þýski framherjinn skoraði fyrsta mark leiksins með laglegu hælsparki og vildi svo axla ábyrgð með því að taka vítin, þrátt fyrir að Gordon væri skráður vítaskytta liðsins.
Woltemade þurfti að láta af því eftir samtal við samherja sína, en var samt sem áður fljótur að fagna með Gordon eftir bæði mörkin.
Howe tók atvikunum með jafnaðargeði og sagði: „Ég elska það! Bestu framherjarnir sem ég hef unnið með vilja skora. Jafnvel þó að það séu fyrirfram ákveðnar reglur, þá er þeim alveg sama. Þeir vilja skora og bera ábyrgð. Ég hef engin vandamál með það,“ sagði Howe.
Hann bætti svo við um Gordon. „Anthony hefur æft vítin mjög mikið. Hann hefur lagt mikla vinnu í að fínpússa rútínuna sína og það sést. Hann er mjög einbeittur og ég var virkilega ánægður með hvernig hann tók bæði vítin. Þegar maður sér einhvern leggja sig svona fram við æfingar, þá hika ég ekki við að treysta honum fyrir því hlutverki.“
Woltemade hefur nú skorað þrjú mörk í fjórum byrjunarliðsleikjum fyrir Newcastle eftir að hann gekk til liðs við félagið frá Stuttgart fyrir 69 milljónir punda í sumar, en sú upphæð vakti mikla gagnrýni í Þýskalandi.
Karl-Heinz Rummenigge, stjórnarmaður hjá Bayern München, sagði meðal annars að Newcastle væru asnar fyrir að greiða svona háa upphæð fyrir 23 ára gamlan leikmann.