Það eru miklu fleiri á leigumarkaði Íslands heldur en áður var talið. RÚV greindi frá því fyrr í vikunni að ný könnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) bendi til þess að erlendir ríkisborgarar hafi verið verulega vantaldir í búsetukönnunum til þessa sem hafi leitt til þess að stærð leigumarkaðarins hefur verið vanmetin. Samkvæmt könnun HMS í fyrra voru 15 prósent fullorðinna á leigumarkaði en nú er komið á daginn að þessi tala tekur ekki nægjanlegt tillit til erlendra ríkisborgara.
Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Samtaka leigjenda á Íslandi, segir í samtali við Bítið á Bylgjunni að hann hafi reynt að benda á þetta lengi. Vanáætlaður leigumarkaður geri að verkum að stjórnvöld byggi ekki aðgerðir sínar á réttum tölum og sjái ekki hversu alvarleg staðan á leigumarkaði er orðin og hvað það hefur áhrif á marga.
„Þetta hefur verið viðvarandi vandamál,“ segir Guðmundur og rekur það allt aftur til áranna eftir hrun. Þá hafi Hagstofan farið að taka saman tölur yfir fjölda heimila í séreign sem fór fækkandi á því tímabili. Síðar var ráðist í að leiðrétta tölurnar á árunum 2017-2018 samhliða mikilli fólksfjölgun. Guðmundur bendir á að íbúðum fjölgaði kannski um 14-15 þúsund á einhverju árabili og samhliða hafi aðeins verið áætlað að leiguíbúðum hafi aðeins fjölgað um 400 og aðeins um 900 íbúðir komist í eign einstaklinga með eina íbúð. Af þessum orðum Guðmundar má ráða að stjórnvöld hafi átt að setja spurningarmerki við áætlun á stærð leigumarkaðar mun fyrr enda rúmist 14-15 þúsund nýir íbúar ekki innan 400 leiguíbúða og 900 keyptra eigna.
„Þannig að árið 2018 gera þeir stóra leiðréttingu sem nær nokkur ár aftur í tímann. En svo árið 2019 þá í raun afturkalla þeir leiðréttinguna og segja að á árinu 2019 hafi heimilum á leigumarkaði fækkað um 12.600 á einu ári. En á sama tíma eru að flytja inn til landsins 4-5 þúsund manns.“
Guðmundur reiknaði það saman árið 2023 að líklega væru leigjendur vantaldir um 75.000.
„Það er nú svolítið mikil skekkja.“
Leigjendum hafi fjölgað samhliða samdrætti í eignarhaldi einstaklinga með eina íbúð. Þetta helst auðvitað í hendur enda fjárfestir fólk gjarnan í aukaíbúðum til að leigja þær út.
Guðmundur bendir á að HMS hafi metið stærð leigumarkaðar í gegnum kannanir og fengið fyrirtækið Prósent til að sinna þeim. Gallinn við það sé sá að Prósent styðst við fyrirfram skilgreindan hóp sem hefur samþykkt að taka þátt í könnunum. Þessi hópur samanstandi líklegast fyrst og fremst af Íslendingum sem séu auk þess í betri stöðu en þeir sem verst hafa það á leigumarkaði, enda hafi þeir síðarnefndu um nóg annað að hugsa en að taka þátt í skoðanakönnunum.
Vanáætlun leigumarkaðar hafi áhrif á margt, til dæmis afstöðu og ákvarðanatöku stjórnvalda.
„Alþingismenn mega ekki nota hvaða tölur sem er, mega ekki fara með einhvern orðróm á Alþingi og segja: Heyrðu þetta er svona, leigumarkaðurinn er 27% af öllum heimilum. En það stendur hjá HMS, upplýsingagátt Alþingis frá HMS, að þetta séu 13-17 prósent. Og það lætur þingheim hafa þá tilfinningu að það sé í rauninni allt í standi, jafnvel að leigumarkaðurinn sé að dragast saman. Ekki bara í standi heldur mjög vel gert og allt á réttri leið. Á meðan er þetta að fara í þveröfuga átt.“
Guðmundur Hrafn bindur vonir við að stjórnvöld hlusti núna og átti sig á umfangi leigumarkaðs og stöðu hans. Hann hefur trú á þingmönnum Flokks fólksins, Ragnari Þór Ingólfssyni og Ástu Lóu Þórsdóttur, en einnig hafði hann átt góð samtöl við ráðherrana Kristrúnu Frostadóttur og Jóhann Pál Jóhannsson þegar þau voru enn í stjórnarandstöðu á Alþingi. Til standi að ræða við ráðherra á næstunni og Guðmundur Hrafn vonar að þau séu tilbúin að hlusta enda standi og falli lífskjör leigjenda með „þessu fáa fólki sem er hér á þingi og hefur sýnt okkur svona samstöðu í gegnum tíðina“.