Franskir hermenn stöðvuðu í gær för olíuskips sem talið er tilheyra svokölluðum skuggaflota Rússa. Grunur leikur á að skipið tengist dularfullu drónaflugi sem olli usla í Danmörku í septembermánuði. Mögulega hafi drónar verið sendir á loft úr skipinu eða för þess einfaldlega notuð til að villa um fyrir óvinum. Olíuskipið, sem siglir undir fána Benín, heitir Boracay og hefur áður verið á svörtum lista Evrópusambandsins yfir skip sem tengjast Rússum. Þá var skipið kyrrsett fyrr á árinu fyrir að sigla ekki undir fána neins lands.
Ekki kom til neinna átaka um borð í skipinu en skipstjóri þess og fyrsti stýrimaður gáfu sig fram við hermennina og voru handteknir. Skipið liggur nú fyrir akkerum nærri borginni Saint-Nazaire við vesturströnd Frakklands.
Eins og áður segir er talið að skipið tilheyri svokölluðum skuggaflota Rússa en það eru yfirleitt skip sem komin eru til ára sinna en eru skráð í öðrum löndum. Þau eru sögð nýtt í margvíslegum tilgangi, til dæmis til að komast framhjá efnahagsþvingunum vegna Úkraínustríðsins og jafnvel í hernaðarlegum tilgangi.
Skipið sigldi frá höfn rússnesnku borgarinnar Primorsk þann 20. september síðastliðinn og sigldi í gegnum Eystrasaltið og að strönd Danmerkur. Þaðan sigldi skipið í gegnum Ermasund uns það var stöðvað við strendur Frakklands.
Emanuel Macron, Frakklandsforseti, var spurður út í aðgerð franska hersins í gærkvöldi en hann vildi lítið segja og sagði það ekki í sínum verkahring að álykta um tengsl þess við drónaflugið.
Þá hafa Rússar harðneitað því að hafa nokkuð með skipið að gera.