Evrópa vann Ryder golf keppnina á Bethpage Black vellinum í New York fylki á dramatískan hátt með 15 stigum gegn 13 stigum Bandaríkjanna. En keppninnar verður ekki minnst fyrir niðurstöðurnar á vellinum heldur fyrir hegðun og lágkúru bandarískra stuðningsmanna.
Á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt hegðunina er norður-írski kylfingurinn Rory McIlroy, ein stærsta stjarna heims. Hann hefur greint frá því að evrópskir kylfingar og fjölskyldur þeirra hafi orðið fyrir stanslausu áreiti. McIlroy sagði að bandarískur áhorfandi hafi kastað bjórdós í eiginkonu hans, Ericu, á laugardeginum.
„Þetta á ekki að vera ásættanlegt í golfi. Ég tel að við ættum að hafa hærri staðal í golfi en við sáum í þessari viku. Golf getur sameinað fólk. Golf kennir manni góðar lífslexíur. Það kennir manni kurteisi. Það kennir manni að fylgja reglunum. Það kennir manni að virða annað fólk. Stundum í þessari viku sáum við þetta ekki. Svo, nei þetta ætti ekki að vera ásættanlegt á Ryder Cup,“ sagði McIlroy.
Annar kylfingur, Írinn Shane Lowry, sagði sömu sögu. „Ég var þarna í tvo daga með Ericu McIlroy og áreitið sem hún varð fyrir var hroðalegt,“ sagði Lowry.
Í golfi gilda ákveðnar reglur um kurteisi áhorfenda og truflun en þær virtust skipta skrílinn í New York litlu máli eins og kemur fram í grein í breska blaðinu The Guardian. Bauluðu áhorfendur á meðan evrópskir kylfingar tóku æfingahögg og góluðu „Yee-haw“ í hvert sinn sem Evrópumenn klúðruðu höggi.
Á laugardeginum jókst áreitið og varð virkilega ljótt. Þá fór það að beinast meira gegn fjölskyldum Evrópuliðsins, kylfusveinum og fleirum. Áhorfendur góluðu rasísk orð og hómófóbísk. Öll kurteisin sem tengd er við golfið var á bak og burt. Kalla þurfti út auka gæslu í til að vakta McIlroy og fjölskyldu hans og vísa þurfti nokkrum áhorfendum af vellinum.
Þá sást kynnir keppninnar Heather McMahan leiða skrílinn í að kalla „Fuck You Rory!“ Var hún rekin af svæðinu og þurfti golfsambandið PGA að biðjast afsökunar á hegðun hennar.
Í áhorfendaskaranum voru margir með MAGA hatta og Donald Trump Bandaríkjaforseti mætti sjálfur á staðinn á föstudeginum. Hann hefur ekki gagnrýnt hegðun áhorfendanna heldur sást hæla þeim og peppa.
Í grein The Guardian er líka bent á að það sem gerðist á Bethpage Black um helgina gerðist ekki í einhverju tómarúmi. Þetta er afleiðing af skipulögðu niðurbroti gilda og viðmiða sem Trump og MAGA liðar hans hafa stundað um nokkurra ára skeið.
Stuðningsmenn Trump eru hættir að taka tillit til nokkurs manns í almannarýminu og beita öllum brögðum, hversu ljót og ómanneskjuleg sem þau eru, til þess að reyna að sverta og sigra andstæðinga sína. Athugasemdakerfi internetsins eru búin að flæða út í almannarýmið.