Þetta sagði Selenskí í ræðu eftir fund með Donald Trump Bandaríkjaforseta á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York um helgina. Hann segir að Rússar séu að undirbúa stærra stríð.
„Pútín mun ekki bíða eftir að ljúka stríðinu í Úkraínu. Hann mun hefja nýtt stríð en enginn veit hvar. Þetta er það sem hann vill,“ sagði hann.
Selenskí sagði að yfirvöld í Kreml væru vísvitandi að kanna getu Evrópu til að verja lofthelgi sína, eftir að drónar höfðu sést í Danmörku, Póllandi og Rúmeníu, auk þess sem rússneskar orrustuþotur hefðu brotið gegn lofthelgi Eistlands.
Fleiri drónar sáust svo á föstudagskvöld yfir danskri herstöð og á laugardag yfir norskri herstöð. Selenskí sagði að ESB ætti í erfiðleikum með að bregðast við þessari „nýju og hættulegu“ ógn. Sagði hann einnig að fulltrúar nokkurra ónefndra ríkja væru væntanlegir til Úkraínu til að fá „hagnýta þjálfun“ í hvernig á að verjast loftárásum Rússa. „Við erum tilbúin að deila reynslu okkar,“ sagði hann.