Stór bronsstytta af Donald Trump Bandaríkjaforseta og barnaníðingnum Jeffrey Epstein var reist nálægt þinghúsinu í Washington í Bandaríkjunum á þriðjudag. Lögreglan var fljót að fjarlægja hana.
„Bestu vinir að eilífu,“ var heiti styttunnar sem var reist á þriðjudag, 23. september, við umferðargötu framan við þinghúsið í Washington.
„Við fögnum hinu langvarandi sambandi Donald Trump Bandaríkjaforseta og nánasta vini hans Jeffrey Epstein,“ var meðal þess sem stóð á stöpli styttunnar. Sem og ýmis ummæli úr nýbirtu afmæliskorti Trump til Epstein frá árinu 2003.
Samkvæmt sjónvarpsstöðinni CBS hafði sá sem setti upp styttuna leyfi til að hafa hana þar uppi til klukkan 20:00 á sunnudagskvöld, það er 28. september. Samkvæmt leyfinu mætti ekki taka hana niður nema að láta eigandann vita með sólarhrings fyrirvara.
Styttan fékk hins vegar aðeins að standa í nokkra klukkutíma. Á miðvikudagsmorgun var lögreglan í Washington búin að láta fjarlægja hana.
Að sögn lögreglu þá brýtur styttan í bága við lög. Ekki var hins vegar tilgreint hvernig hún gerði það eða hvaða lagagreinar hún gengi gegn.
Þrýst hefur verið á bandarísk stjórnvöld að birta Epstein-skjölin svokölluðu yrðu birt. Donald Trump hafði lengi heitið því en eftir að hann varð forseti á nýjan leik hafa engar efndir orðið á því.
Tengsl Trump og níðingsins Epstein, sem dó í varðhaldi árið 2019, hafa mikið verið í deiglunni undanfarið, meðal annars eftir að afmæliskortið áðurnefnda dúkkaði upp.
Trump hafði haldið því fram að kortið væri ekki til en það var birt að undirlagi þingnefndar sem leiðir rannsókn á glæpum Epstein. Á kortinu eru rissaðar útlínur nakinnar konu með undirskrift Trump eins og skapahár. Á kortinu stendur meðal annars: „Vinátta er dásamleg. Tim hamingju með afmælið og megi hver dagur vera annað dásamlegt leyndarmál.“
Styttan sem var fjarlægð er ein af mörgum pólitískum listaverkum sem sett hafa verið upp í almannarýminu undanfarið þar sem vísað er til Trump. Meðal annars var sett upp stytta í júní sem kallaðist „Samþykkt af einræðisherra“ og sýndi stóran gylltan þumal kremja Frelsisstyttuna.
Vikuna á eftir var sett upp stytta af gylltum erni ofan á gamaldags sjónvarpstæki. Á skjánum mátti sjá myndband af Trump dansandi og gömul myndbönd af honum með félaga sínum Jeffrey Epstein.