Mest varð truflunin á flugvellinum í Álaborg og var honum lokað um tíma eftir að drónanna varð vart. Drónarnir höfðu einnig áhrif á þrjá minni flugvelli; í Esbjerg, Sønderborg og Skrydstrup en ekki kom til þess að loka þyrfti þeim.
Mikil röskun varð á flugi til og frá Kaupmannahöfn fyrr í vikunni þar sem tveir til þrír stórir drónar sáust á flugi við flugvöllinn. Var vellinum lokað í fjórar klukkustundir og hafði röskunin áhrif á þúsundir farþega.
Peter Hummelgaard, dómsmálaráðherra Danmerkur, sagði á blaðamannafundi í morgun að yfirvöld væru á fullu að rannsaka málið. Ekki sé hægt að útiloka neitt, en enn sem komið er væri ekki hægt að fullyrða neitt um hugsanlega aðkomu Rússa. Segir hann að truflun af þessu tagi sé „komin til að vera“ í Danmörku.
Troels Lund Poulsen, varnarmálaráðherra landsins, sagði á fundinum að „fagmenn“ væru að verki og að um kerfisbundna árás væri að ræða.
„Það er ekki hægt að efast um að allt bendir til þess að þetta sé verk fagmanna þegar við erum að tala um svo kerfisbundna aðgerð á svo mörgum stöðum nánast á sama tíma,“ segir hann.
Bætti hann við að danski herinn hefði getu til að skjóta drónana niður en að svo stöddu væri ekki talin þörf á því þar sem ekki um beina hernaðarlega ógn væri að ræða.