Píratar bæta við sig fylgi en Viðreisn dalar í nýrri skoðanakönnun. Heilt yfir eru þó ekki miklar breytingar á milli mánaða.
Samfylkingin er áfram stærsti flokkur landsins og bætir við örlitlu fylgi á milli mánaða í könnunum Maskínu. Nú í september mælist flokkurinn með 31,9 prósenta fylgi sem er aukning um 0,3 prósent.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins er óbreytt í 18,6 prósentum sem og fylgi Flokks fólksins í 6,3 prósentum. Fylgi Viðreisnar dalar úr 16,1 prósenti í 14,3, Miðflokkur dalar úr 9,6 prósentum í 9,1, Framsóknarflokkur úr 6,5 í 6,3 og Vinstri Græn úr 4,2 í 4,1.
Píratar bæta mestu við sig á milli mánaða. Fara úr 4,5 prósent í 5,8 og Sósíalistaflokkur hækkar úr 2,6 prósentum í 3,5.
Yrðu þetta niðurstöður Alþingiskosninga gætu Samfylking og Viðreisn myndað tveggja flokka meirihluta, það er Samfylking með 22 þingsæti og Viðreisn með 10. Flokkur fólksins fengi 4 þingsæti.
Sjálfstæðisflokkur fengi 13 sæti, Miðflokkur 6 og Framsóknarflokkur 4 sæti. Þá kæmu Píratar aftur inn á þing með 4 sæti, og yrði í fyrsta skipti í sögunni sem flokkur kæmi aftur inn eftir að hafa þurrkast út í kosningum.
Um er að ræða niðurstöður tveggja kannana, sú fyrri gerð 4. til 9. september og sú seinni 15. til 19. september. 1.713 tóku þátt í könnunum samanlagt.