Á morgun verður áttin austlægari og samfelld rigning fyrst syðst og talsverð rigning suðaustanlands. Hiti verður 9-15 stig, mildast norðan heiða.
Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að nokkrar lægðir fari framhjá landinu næstu daga og munu þær bjóða upp á „sígilt haustveður“ eins og það er orðað.
„Í dag verður suðlæg átt 8-15 m/s og skúrir, en líkur á stöku eldingum á sunnanverðu landinu. Áfram verður úrkomulítið á Norðurlandi. Milt í veðri. Dregur úr vindi og skúrum á morgun, en hvessir seinnipartinn og fer að rigna hressilega. Búast má við talsverðri eða mikilli úrkomu sunnantil undir kvöld og um nóttina. Á Norðurlandi er yfirleitt þurrt, en rigning af og til um kvöldið. Hiti 9 til 14 stig.“
Að sögn veðurfræðings er útlit fyrir sunnan hvassviðri eða storm um tíma á föstudag.
„Gott að hugsa að ganga frá lausum munum í görðum til að forðast tjón. Víða rigning en aftur á móti talsverð eða mikil úrkomu á suðaustanverðu landinu. Hiti 7 til 12 stig. Laugardagurinn lítur skár út með hægari vindi og minni rigningu, en hvessir aftur á sunnudag með einni gusu í viðbót. Hiti yfirleitt 9 til 14 stig.“