Í umdæmi lögreglustöðvar 3, sem sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti, var tilkynnt um sex grímuklædda menn sem réðust á einn með höggum og spörkum. Þolandi árásarinnar var fluttur á slysadeild til aðhlynningar og er málið í rannsókn.
Í sama umdæmi kom upp ágreiningur á milli aðila sem endaði þannig að annar þeirra mundaði hníf í átt að hinum áður en hann ók á brott á vespu. Loks skullu hjólreiðamaður og gangandi vegfarandi saman og var annar þeirra fluttur á slysadeild.
Í umdæmi lögreglustöðvar 1, sem sinnir meðal annars verkefnum í miðborginni, Vesturbænum og Hlíðunum, var tilkynnt um innbrot í heimahús þar sem ýmsum verðmætum var stolið. Málið er í rannsókn.
Þá var tilkynnt um árekstur og afstungu þar sem minni háttar slys urðu á fólki. Lögregla hefur upplýsingar um tjónvald og er málið í rannsókn. Loks voru fjórir einstaklingar kærðir fyrir rúðubrot en frekari upplýsingar um málið koma ekki fram í skeyti lögreglu.
Í umdæmi lögreglustöðvar 4, sem sinnir meðal annars Árbæ, Grafarvogi og Mosfellsbæ, var tilkynnt um umferðarslys þar sem tveir fólksbílar skullu saman. Þeir voru báðir dregnir af vettvangi og urðu minni háttar slys á fólki. Loks var tilkynnt um innbrot í verslun þar sem fjármunum var stolið úr sjóðvélum. Málið er í rannsókn.