fbpx
Fimmtudagur 11.september 2025
Fréttir

Grískum fíkniefnasala vísað úr landi – Búinn að lifa á bótum síðan 2021

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 11. september 2025 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd útlendingamála hefur staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um að vísa karlmanni sem er grískur ríkisborgari úr landi og banna honum að koma aftur næstu sex árin. Maðurinn hefur hlotið einn refsidóm hér á landi, meðal annars fyrir vörslu fíkniefna í sölu og dreifingarskyni og fjöldi mála, þar sem hann er grunaður um ýmis brot, er til rannsóknar hjá lögreglu. Fram kemur í úrskurðinum að frá 2021 til 2024 hafi maðurinn þegið bætur frá atvinnuleysistryggingasjóði en óljóst virðist hvaðan framfærsla hans hefur komið eftir það.

Maðurinn kærði ákvörðunina til nefndarinnar í mars á þessu ári. Eins og í öðru máli sem DV hefur greint frá snerist þetta mál um einstakling frá ríki innan EES sem hefur því tiltekinn rétt til dvalar hér á landi.

Glæpamaður sem lifði á kerfinu rekinn úr landi

Maðurinn skráði dvöl sína hér á landi í september 2018. Hann hlaut refsidóm 2024 fyrir brot á umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Þá hefur hann greitt fjórar lögreglustjórasektir vegna brota á umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni.

Auk dómsins vísaði Útlendingastofnun, í ákvörðun sinni um brottvísun, til umsagnar lögreglu en í henni kom fram að fjöldi opinna mála á hendur manninum væru til meðferðar hjá lögreglu vegna ítrekaðra brota hans gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Benti Útlendingastofnun einnig á að stærstur hluti framfærslu mannsins hefði verið fjármagnaður með aðstoð hins opinbera. Í andmælum mannsins var lögð fram ljósmynd af innistæðu á bankareikningi í Grikklandi. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar að ljósmyndin gæfi ekki fullnægjandi sönnun fyrir því að maðurinn hefði yfir að ráða nægilegu fé til að vera ekki byrði á félagslega kerfinu hér á landi.

Ekki nógu alvarlegt

Í kæru mannsins væru færð ítarleg rök fyrir því að brottvísun hans væri ekki í samræmi við rétt borgara innan EES-svæðisins til ferðafrelsis. Taldi hann þau brot sem hann hafði verið sakfelldur fyrir ekki nægilega alvarleg til að fela í sér ógn við grundvallarhagsmuni samfélagsins og hann verðskuldaði þar af leiðandi ekki brottvísun, samkvæmt lögum. Hann taldi það einnig eiga við um þau fimm opnu mál hjá lögreglu, þar sem hann hefði réttarstöðu sakbornings. Hvað varðaði 28 önnur mál, þar sem maðurinn er skráður sakborningur í kerfum lögreglu, sagði hann að með því að vísa til þess í ákvörðun Útlendingastofnunar væri verið að brjóta á rétti hans til að teljast saklaus uns sekt er sönnuð.

Maðurinn sagðist eiga rétt til ótímabundinnar dvalar þar sem hann hefði búið á Íslandi í sjö ár. Hann mótmælti því að uppfylla ekki ákvæði útlendingalaga um framfærslu á grundvelli sjálfsaflafjár eða atvinnuþátttöku. Vildi hann meina að hann hafi ekki notið félagslegrar aðstoðar Hann hefði vissulega fengið greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði en það félli ekki undir félagslega aðstoð.

Sagði maðurinn einnig að kona hans byggi hér. Hún væri albanskur ríkisborgari sem hefði dvalarleyfi á Íslandi sem maki borgara EES-ríkis. Það væri ekki hægt að ganga að því sem vísu að hann fengi dvalarleyfi í Albaníu eða hún í Grikklandi.

Síbrot

Í niðurstöðu kærunefndar útlendingamála kemur fram að dómurinn sem maðurinn hlaut árið 2024 hafi verið fyrir sex umferðarlagabrot; ölvunar- og fíkniefnaakstur, akstur án ökuréttinda og hraðakstur. Þar að auki var hann sakfelldur fyrir sex brot gegn fíkniefnalögum með því að hafa í vörslu sinni fíkniefni, í sölu- og dreifingarskyni.

Nefndin vísar einnig til þess að í umsögn og greinargerð lögreglu komi fram að hún hafi haft afskipti af honum vegna margvíslegra brota frá árinu 2019. Samkvæmt umsögninni hafi maðurinn verið skráður sakborningur í alls 27 málum sem feli í sér 54 brot gegn almennum hegningarlögum og umferðarlögum. Þá hafi hann verið skráður aukaaðili í 60 málum þar sem hann sé í félagahópi einstaklinga sem þekktir séu í kerfum lögreglu en málin varði ofbeldis- og fíkniefnalagabrot. Maðurinn eigi fimm opin mál til meðferðar hjá lögreglu vegna sex brota, sem ýmist séu til rannsóknar eða meðferðar á ákærusviði. Samkvæmt málayfirliti varði brotin stórfellda líkamsárás, vörslu og meðferð ávana- og fíkniefna, fyrirmælum lögreglu hafi ekki verið hlýtt, peningaþvætti vegna ávinnings af eigin broti og lög um útlendinga.

Í viðbótargreinargerð lögreglu komi fram að maðurinn sé skráður sakborningur í 28 málum sem feli í sér 56 brot. Brotin feli í sér akstur án ökuréttinda, akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og lyfja og vörslu og meðferð ávana- og fíkniefna.

Ógn

Kærunefnd útlendingamála segir ljóst að þar sem maðurinn hafi komið við sögu í svo mörgum málum, sem varði meðal annars brot eins og akstur undir áhrifum fíkniefna, sem ógni almannaöryggi, og eigi brotaferil yfir langt tímabíl og sé þar með líklegur til að brjóta meira af sér verði framferði hans að teljast ógna grundvallarhagsmunum samfélagsins. Þar með sé skilyrðum fyrir brottvísun, samkvæmt ákvæðum, útlendingalaga fullnægt.

Þegar kemur að félagslegri aðstoð við manninn segir nefndin að hann hafi stundað atvinnu hér á landi á tímabilinu október til desember árið 2018 og greitt staðgreiðslu af launum árið 2019 og 2020, í janúar til september og í nóvember 2021 og af einum mánuði árið 2022. Það sem eftir var af árunum 2021 og 2022 og árin 2023 og 2024 hafi hann fengið greiðslur út atvinnuleysistryggingasjóði. Dvöl mannsins hafi því að miklum hluta verið fjármögnuð með aðstoð hins opinbera.

Nefndin hafnar þeirri röksemd að greiðslur úr atvinnuleysistryggingasjóði teljist ekki vera félagsleg aðstoð. Maðurinn hafi þar með glatað rétti sínum til dvalar á landinu enda sé réttur EES-borgara til hennar bundin því að verða ekki ósanngjörn byrði á félagslega kerfinu. Skjáskot mannsins af innistæðu í grískum banka breyti engu þar um enda komi ekki fram á skjáskotinu hver eigandi bankareikningsins sé.

Konan

Þegar kemur að þeirri röksemd að kona mannsins búi hér á landi þá vísar nefndin til þess að gögn frá Skattinum sýni takmarkaða atvinnuþátttöku af hennar hálfu og hún hafi þar að auki verið skráð flutt úr landi fyrr á þessu ári.

Nefndin segir ljóst að brotasaga mannsins og lítil atvinnuþátttaka sýni lítinn vilja til aðlögunar að íslensku samfélagi og það sé ekki ósanngjörn ráðstöfun gagnvart honum og konu hans að vísa honum úr landi. Það liggi fyrir að hann hafi framfleytt þeim báðum með atvinnuleysisbótum og af gögnum málsins megi ráða að hann hafi einnig gert það með ávinningi af afbrotum.

Brottvísun og endurkomubann í sex ár var því staðfest. Maðurinn getur skotið málinu til dómstóla. Það frestar ekki brottvísun en hann getur þó gert kröfu um slíkt. Hvort þetta hafi hann gert er DV ekki kunnugt um.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Faðir Oscars ákærður

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Egill furðar sig á þessu í Leifsstöð – „Engin smá fjárfesting“

Egill furðar sig á þessu í Leifsstöð – „Engin smá fjárfesting“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Sérkennileg skilaboð frá Trump vegna drónaflugs Rússa inn í Pólland

Sérkennileg skilaboð frá Trump vegna drónaflugs Rússa inn í Pólland
Fréttir
Í gær

Íbúar logandi hræddir eftir að barnaníðingur flutti í bæinn – „Til skammar“

Íbúar logandi hræddir eftir að barnaníðingur flutti í bæinn – „Til skammar“
Fréttir
Í gær

Allt á suðupunkti eftir atburði næturinnar: „Staðan er alvarleg“

Allt á suðupunkti eftir atburði næturinnar: „Staðan er alvarleg“