Leikarinn Charlie Sheen gengst við því í æviminningum sínum, The Book of Sheen, að hann hafi farið í fitusog um aldamótin. Þetta ákvað leikarinn að gera eftir vandræðalega lífsreynslu.
Sheen var staddur með bróður sínum í Kanada við tökur á kvikmyndinni Rated X sem fjallar um Mitchell-bræðurna sem voru frumkvöðlar í kláminu. Sheen hafði ekki stundað kynlíf á meðan á tökum stóð svo seinasta kvöld sitt í Kanada ákvað hann að leita til vændiskonu.
Hann lýsir því að vændiskonan hafi verið gullfalleg og hún kom til hans á hótelherbergið þar sem hún gaf honum þá þjónustu sem hann borgaði fyrir. Eftir á kveikti leikarinn sér í sígarettu á meðan hann jafnaði sig á leikfimninni. Þá skyndilega sló vændiskonan fast á bumbuna hans og spurði: Jæja hlunkur, ertu til í aðra umferð?
Sheen segir í bók sinni að þetta uppnefni vændiskonunnar hafi sært tilfinningar hans. Hún gat valið um þúsundir uppnefna en valdi þetta.
„Mig langaði að skjóta mig. Það er ótrúlegt hvað eitt orð getur gert manni.“
Leikarinn segist þó hafa verið fljótur að taka gleði sína á ný og þáði hann boð vændikonunnar um aðra umferð „og gerði mitt besta til að kremja hana ekki í leiðinni“.
Viku eftir að hann sneri aftur heim til Kaliforníu fór hann og bókaði tíma hjá lýtalækni til að fara í fitusog. Sheen rekur í bókinni að hann hafi vissulega verið búinn að bæta töluvert á sig á þessum tíma, enda hafði honum nýlega tekist að verða edrú.
„Það er algengt að margir bæti hressilega á sig þegar þeir verða edrú, sérstaklega þegar örvandi lyf voru þeirra ær og kýr. Ég er frekar til í að vera mjúkur og lifandi en grindhoraður og dauður.“