Hollywood leikarinn Raymond Cruz var handtekinn í gær, mánudag, vegna líkamsárásar. Hann er grunaður um að hafa sprautað vatni með garðslöngu á þrjár ókunnugar konur.
Cruz er sextugur að aldri og er einna þekktastur fyrir hlutverk sitt sem eiturlyfjakóngurinn Tuco Salamanca í þáttunum Breaking Bad og Better Call Saul. Áður var hann þó einkum þekktur sem einsk konar „karakter-leikari“, það er yfirleitt í litlum hlutverkum sem sérsveitarmaður eða hermaður. Meðal annars í Clear and Present Danger, Alien: Resurrection, Under Siege, The Rock og The Substitue.
Að sögn talsmanns lögreglunnar í Los Angeles var tilkynnt um deilu á milli fólks klukkan 10:40 um morguninn og lögregluþjónar sendir á staðinn. Var Cruz settur í járn og síðan í steininn og er grunaður um fyrrnefndan verknað.
Cruz er nú laus úr haldi en á að mæta fyrir dómara þann 1. október næstkomandi. Raphael Berko, umboðsmaður Cruz, hefur sagt það fráleitt að hann hafi sprautað viljandi á nokkra manneskju. Sagði hann ásökunina vera „fráleita og hættulega.“
Sagði hann Cruz hafa verið að þrífa bílinn sinn á bílaplaninu fyrir framan heimilið þegar þrjár konur sem hann þekkti ekki hafi lagt alveg upp við bílinn hans. Hafi Cruz beðið þær að færa bílinn en þær neitað og byrjað að taka upp myndband af honum á síma.
Hafi Cruz beðið þær að hætta að mynda, enn þá með slönguna í hendinni, hafi þá farið vatn af hans bíl yfir á þær.