Ferðamaður sem hefur komið reglulega til Íslands á undanförnum árum hefur tekið eftir að hótelverðið hefur rokið upp á undanförnum tveimur árum.
Í færslu á samfélagsmiðlinum Reddit greinir ferðamaðurinn frá því að hafa meðal annars komið til Íslands í maí árið 2022 og maí árið 2024. Hann hafi hugsað sér að koma aftur í maí árið 2026.
„Vandamálið er það að á milli þessara tveggja ára hefur hótelverðið tvöfaldast,“ segir hann. Það sama virðist vera að gerast núna, það er að verðið sé að tvöfaldast aftur.
Nefnir hann að hafa verið á hóteli í Höfn þar sem nóttin hafi kostað 100 evrur árið 2022, það er um 14.400 krónur. Árið 2024 hafi verðið verið komið upp í 200 evrur, það er 28.800 krónur.
„Þetta var í lagi en árið 2026 kostar nóttin á þessu sama hóteli 400 evrur,“ segir hann. En það gera 57.600 krónur.
Hann vilji áfram koma til Íslands en hótelin séu einfaldlega orðin of dýr.
„Ég verð að hugsa um að vera á tjaldstæði þegar verðin eru orðin svona. Fyrir covid gat ég fundið góð hótel á undir 100 evrum fyrir nóttina en í dag er það ómögulegt,“ segir hann. „Það eru einungis gististaðir með sameiginlegum baðherbergjum.“
Hefur færslan fengið mikla athygli og umræður. Taka margir undir þetta, það er að Ísland sé orðið allt of dýrt.
„Ísland er og var að mestu fyrir þá ríku,“ segir einn. „Það er hægt að heimsækja Ísland án þess að eyða mjög miklum pening en það þýðir að þú verður að vera á tjaldstæðum og elda mat á prímus.“
Einn bandarískur ferðamaður leggur orð í belg og er harðorður um verðlagið á Íslandi. Nefnir hann að Bandaríkjamenn séu ekki allir ríkir og margir þurfi að safna lengi til þess að komast í ferðalög.
„Ef hótelin kostuðu ekki 400 dollara nóttin (49 þúsund krónur) þá myndi fólk ábyggilega fara í lengri ferðir. Satt best að segja þá er það viðbjóðslegt hversu dýrir sumir hlutirnir voru,“ segir hann. „Meira að segja hótelherbergi nálægt Vík í nóvember kostuðu meira en 200 dollara (24.500 krónur) nóttin. Fáránlegt.“
Nefnir hann að verðlagið komi ekki aðeins niður á erlendum ferðamönnum. „Þetta svakalega verðlag er erfitt fyrir Íslendinga líka. Þeir finna meira fyrir þessu en við,“ segir hann.