Í frétt breska ríkisútvarpsins, BBC, kemur fram að talsmaður hersins, Avichay Adraee, hafi tilkynnt á samfélagsmiðlinum X að gripið verði til „viðamikilla“ aðgerða og varaði hann íbúa við því að vera á svæðinu.
„Ísraelsher er staðráðinn í að sigra Hamas og mun beita miklu afli til þess,“ segir hann og eru íbúar hvattir til að í átt að „mannúðarsvæðinu“ í Al-Mawasi.
Þetta kemur í kjölfar þess að öryggisráð Ísraels samþykkti í síðasta mánuði áætlun um að taka stjórn á borginni þar sem hundruð þúsunda Palestínumanna búa.
Í reynd er Ísrael að skipa allt að einni milljón manns að yfirgefa stærstu þéttbýlismyndun Gasa-svæðisins og fara til þess sem landið kallar „mannúðarörugga svæðið“ í al-Mawasi, sunnar.
Ísraelsher segir að matur og læknisaðstoð sé í boði í al-Mawasi en í frétt BBC er bent á að svæðið og önnur svokölluð „örugg svæði“ hafi ítrekað verið sprengd í stríðinu. Segja Sameinuðu þjóðirnar að enginn staður á Gasa megi teljast öruggur.
Benjamin Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, segir að meira en 50 byggingar hafi verið sprengdar af flugher Ísraels síðustu daga og bætti við að það væri aðeins upphafið að umfangsmestu aðgerðunum – það er landhernaði í Gasaborg.