Fyrir skömmu síðan var lýst eftir 9 ára gamalli stúlku sem hafði horfið frá fósturheimili sínu í Fayette sýslu í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum.
Í kjölfar vitnisburðar sjö ára gamallar systur stúlkunnar fannst lík hennar í poka við árbakka. Líkið bar merki vannæringar og misþyrminga.
Hún hét Renesmay Eutsey. Fósturmóðir hennar, hin 31 árs gamla Courtney Eutsey, hefur verið ákærð fyrir morð. Konan hafði tekið Renesmay og þrjú yngri systkini hennar í fóstur en hún er blóðskyld börnunum.
Líkið af litlu stúlkunni fannst síðastliðinn miðvikudag. Lögreglumenn voru þá að yfirheyra heimilisfólk vegna hvarfs stúlkunnar og voru í þann veginn að fara fram á húsleitarheimild þegar sjö ára systir stúlkunnar gaf sig á tal við lögreglumann og baðst afsökunar á því að hafa sagt ósatt áður. „Ég mun aldrei sjá systur mína aftur því hún er á himnum,“ sagði barnið.
Hún lýsti því síðan hvernig hún hafði séð systur sinni misþyrmt og lík hennar síðan sett ofan í poka. Sagði hún að varir hennar hefðu verið hvítar og hún hefði virst sofandi.
Fósturmóðirin, Kourtney Eutsey, sagði við lögreglumenn að Renesmay litla hefði kafnað þegar hún kastaði upp. Hún hefði ekki haft samband við lögreglu heldur losað sig við líkið þar sem hún hefði verið hrædd vegna þess að stúlkan var horuð og hún hefði brennt sig í baði fyrir stuttu.
Önnur kona aðstoðaði Kourtney við að koma líkinu fyrir og hefur hún líka verið ákærð. Nánar má lesa um málið á vef CBS News, hér og hér.