Sjötugur hótelgestur á Tenerife, nánar tiltekið á Adeje-ströndinni, fékk hjartaáfall í sundlaug hótelsins þar sem hann dvaldist og lét lífið.
Canarian Weekly greinir frá þessu en atvikið átti sér stað á föstudagsmorgun. Öryggisverðir við sundlaugina urðu varir við að maðurinn átti í erfiðleikum í lauginni og drógu hann upp úr vatninu. Hann hafði þá fengið hjartaáfall.
Veittu þeir honum fyrstu hjálp á vettvangi og kölluðu til sjúkralið. Tókst um skeið að koma jafnvægi á líðan mannsins en hann lést þó skömmu síðar á sjúkrahúsi.
Málið er til rannsóknar og hefur ekki verið upplýst að fullu en allt lítur út fyrir að banamein mannsins hafi verið hjartaáfall og drukknun.
Þjóðerni mannsins kemur ekki fram í Canarian Weekly en þar segir að 39 dauðsföll hafi orðið á Kanaríeyjum vegna drukknunar það sem af er ári. Er það nokkur fækkun frá fyrri árum.
Flest atvikin hafa átt sér stað á baðströndum en einnig nokkuð mörg í sundlaugum. Meirihluti hinna látnu eru karlmenn yfir sextugu.