Róbert Guðfinnsson athafnamaður og Siglfirðingur segir aðgerðir lögreglunnar á Norðurlandi Eystra, sem naut aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra, á Siglufirði í gærkvöldi hafa verið storm í vatnsglasi og gengið allt of langt. Fimm voru handteknir í aðgerðunum en Róbert segir um að ræða hóp Letta sem hafi unnið á svæðinu undanfarin ár og einfaldlega fengið sér of mikið neðan í því. Lýsingum hans hefur þó verið andmælt.
Róbert skrifar um málið í pistli á Facebook:
„Fjöldi lögreglubíla mætti í miðbæinn, þrír sérsveitarmenn vopnaðir hríðskotabyssum og jafnvel bulldóser til taks til að brjóta hurðir. Hinir ætluðu „glæpamenn“ reyndust vera Lettar sem hafa unnið hér síðustu ár. Þeir voru nýkomnir úr stuttri heimsókn heim til sín og höfðu drukkið of mikið á leiðinni norður. Einn datt illa í stiga í íbúðarhúsi á mínum vegum og sást blóðugur ráfa um bæinn. Það varð til þess að kallað var á sjúkrabíl – og skömmu síðar mætti sérsveitin.“
Róbert segir hafa verið algjörlega óþarft að hafa meðferðis tæki til að brjóta niður hurðar og málið allt með ólíkindum:
„Þrátt fyrir bulldóser og MP5 hríðskotabyssur voru allar dyr ólæstar og aðgerðin endaði með því að þrír sofandi iðnaðarmenn og tveir til viðbótar voru handteknir og leiddir út í járnum. Sá sem datt var sendur á Akureyri, skoðaður og útskrifaður eftir stutta heimsókn og nokkur spor saumuð. Þegar þetta er skrifað eru tveir enn í haldi lögreglu. Málið reyndist stormur í vatnsglasi. Engin vopn, enginn stunginn, enginn skotinn. Bara nokkrir harðduglegir menn á fylleríi.“
Róbert gerir athugasemd við fréttaflutning fjölmiðla af málinu og veltir fyrir sér hvort samfélagið sé ekki komið fram úr sér og hvort viðbrögðin hefðu verið þau sömu ef um Íslendinga hefði verið að ræða:
„Hefði sama gerst ef blóðugur Íslendingur hefði ráfað um Aðalgötuna? Eða var það þjóðerni hinna sem kallaði á sérsveitina? Okkar ágæti dómsmálaráðherra og yfirstjórn lögreglunnar mættu íhuga hvort stefna og verklag séu farin að skapa vandamál í stað þess að leysa þau. Við viljum ekki að Siglufjörður sé sviðsetning fyrir dramatískar aðgerðir sem eiga heima í kvikmyndum – heldur friðsæll bær þar sem fólk getur lifað sínu lífi í sátt.“
Líflegar umræður hafa geisað í athugasemdakerfinu undir færslu Róberts en nokkrir hafa andmælt lýsingum hans þar á meðal íbúi á Siglufirði sem segist hafa komið að blóðuga manninum og kallað til lögreglu og sjúkrabíl þegar hann hafi séð hversu miklir áverkar voru á manninum. Það standist ekki að áverkarnir hafi verið eftir fall niður stiga svo miklir hafi þeir verið. Maðurinn hafi verið alblóðugur og með skurði víða um líkamann suma hverja mjög djúpa. Svo blóðugur hafi maðurinn verið að illa hafi sést framan í hann. Telur íbúinn víst að maðurinn hafi orðið fyrir árás. Í frétt RÚV af málinu greinir aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi Eystra frá því að ljóst sé að ekki hafi verið um slys að ræða en mennirnir sem voru handteknir hafa nú allir verið látnir lausir.