Þetta segir í umsögn Morgunblaðsins frá árinu 1976 um Hollywood-myndina Walking Tall sem skartaði Joe Don Baker í aðahluterki.
Myndin sagði frá Buford Pusser, fyrrverandi hermanni og glímukappa, sem flutti aftur í heimabæ sinn í Tennessee og gerðist lögreglustjóri.
Heimabær hans var spilltur, glæpagengi réðu ferðinni og vændi og ólögleg spilavíti fengu að viðgangast með vitund yfirvalda. Pusser ákvað að berjast gegn þessu með öllum ráðum en það átti eftir að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir hann og fjölskyldu hans – eða hvað?
Í áratugi var talið að eiginkona Bufords, Pauline, hafi verið skotin til bana af óvildarmönnum hans þann 12. ágúst árið 1967. Buford sagðist hafa fengið útkall þennan morgun og Pauline hafi endilega viljað koma með.
Hann lýsti því svo að skömmu eftir að þau lögðu af stað hefði verið skotið á bifreið þeirra úr öðrum bíl. Pauline lést af sárum sínum en Buford særðist töluvert og var í 18 daga á sjúkrahúsi. Enginn virðist hafa efast um frásögn Bufords sem á þessum tíma var óumdeildur sýslumaður og lögreglustjóri í McNairy-sýslu.
Nú er aftur á móti komið annað hljóð í strokkinn og segir lögregla að allt bendi til þess að Buford sjálfur hafi myrt Pauline. Enginn var handtekinn vegna málsins á sínum tíma en árið 2022 fór deild innan lögreglunnar, sem skoðar köld sakamál, að skoða morðið á Pauline að nýju.
Kom þá í ljós ósamræmi á milli frásagnar Bufords og þeirra sönnunargagna sem lágu fyrir. Þá fékk lögregla ábendingu um mögulegt morðvopn og létu yfirvöld grafa lík Pauline upp.
Dr. Michael Revelle, bráðalæknir og réttarmeinafræðingur, fór yfir krufningarmyndir, vettvangsljósmyndir, minnispunkta læknisins sem rannsakaði málið á sínum tíma og frásagnir Bufords.
Komst hann að þeirri niðurstöðu að líklegra væri en ekki að Pauline hefði verið skotin fyrir utan bílinn og síðan komið fyrir í honum. Þá pössuðu höfuðáverkar sem hún hlaut ekki við myndir úr bílnum og blóð á húddi bílsins vakti einnig grunsemdir. Þá telur Revelle að skotsár sem Buford var með á kinninni hafi verið frá svokölluðu snertiskoti en ekki úr fjarlægð eins og hann hélt sjálfur fram. Telur Revelle að Buford hafi sjálfur veitt sér þessa áverka.
Rannsókn Revelle á líkamsleifum Pauline leiddu í ljós að hún hafði fengið nefbrot sem var gróið þegar hún lést. Segir Mark Davidson, héraðssaksóknari í 25. dómsumdæmi Tennessee, við bandaríska fjölmiðla að vitnisburður þeirra sem þekktu hjónin hafi leitt í ljós að hún hafi verið beitt ofbeldi í hjónabandinu.
„Þetta mál snýst ekki um að sverta minningu goðsagnar. Það snýst um að veita Pauline og fjölskyldu hennar reisn og lokun í þessu máli,” sagði Davidson á fréttamannafundi. Telur hann líkur á að Buford yrði sóttur til saka í dag ef hann væri á lífi, en Buford lést í bílslysi þann 21. ágúst árið 1974. Missti hann stjórn á bíl sínum og endaði utan vegar, en Buford var drukkinn og ekki í öryggisbelti þegar slysið varð.
Walking Tall var endurgerð árið 2004 og færð í nútímalegri útgáfu. Dwayne Johnson, eða The Rock, fór þá með aðalhlutverkið.