fbpx
Sunnudagur 31.ágúst 2025
EyjanFastir pennar

Ágúst Borgþór skrifar: Að anda ofan í hálsmál sakborninga

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 30. ágúst 2025 12:00

Mynd: DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Blaðamenn eru ekki vanir því að geta andað ofan í hálsmálið á sakborningum í morðmáli eða staðið við hlið þeirra í biðröð á salerni í hléinu. Þetta fengu þó blaðamenn sem fylgdust með aðalmeðferð í Gufunesmálinu að upplifa og skal ekki kvartað undan þeirri reynslu. Það breytir því ekki að sú furðulega ákvörðun að halda aðalmeðferð í þessu stóra máli í jafnlitlum dómsal og Héraðsdómur Suðurlands hefur yfir að ráða hefur ýmis vandkvæði í för með sér.

Raunar má segja að hálfgert öngþveiti hafi ríkt við byrjun þinghalds á mánudagsmorgun. Litli dómsalurinn rúmaði ekki þá sem þar áttu að vera, sakborninga, lögreglumenn, saksóknara, verjendur, dómara, áheyrendur og fjölmiðlamenn.

Þeim síðastnefndu var nánast sagt að éta það sem úti frýs en flestum tókst að búa sér til aðstöðu með því að draga stóla af ganginum inn í dómsalinn og koma þeim þar fyrir, en þó ekki án þess að nánast tálma leið saksóknara að sæti sínu.

Fréttamaður frá RÚV varð frá að hverfa og koma aftur síðar um daginn, en eitt sæti losnaði þegar blaðamaður DV, sem er nokkuð við aldur, hafði gefist upp á hitasvækjunni í troðnum salnum og forðaði sér á ágætt kaffihús til að vinna úr upplýsingum sem safnast höfðu saman.

Ég geri mér grein fyrir því að það er enginn að fara að vorkenna fjölmiðlamönnum fyrir vonda aðstöðu í dómsal. En hvað finnst lesendum um að aðstandendur manns sem hefur verið ráðinn bani þurfi að vera nánast ofan í sakborningum í málinu til að geta fylgst með þinghaldinu? Og geti ekki fengið sér sæti. Þetta gerðist við aðalmeðferðina á mánudag.

Héraðsdómur Suðurlands hefur yfir að ráða hluta af annarri hæðinni í verslunar- og skrifstofuhúsinu Miðgarður við Austurveg á Selfossi. Hinn virðulegi dómur hefur þann heiður að fá að deila þarna húsi með meðal annars fataverslun og hárgreiðslustofu. Litli krúttlegi dómsalurinn hentar eflaust ágætlega undir réttarhöld yfir búðaþjófum eða til að leysa ágreining í skuldamálum. En sem vettvangur í stóru og grafalvarlegu sakamáli eins og hér um ræðir er hann fráleitur.

Það er vissulega venja að hafa þinghald í sakamálum í því umdæmi þar sem brot er framið. Brotið gegn manninum frá Þorlákshöfn var að hluta framið þar en einnig í Reykjavík. Sakborningar eru af höfuðborgarsvæðinu, reyndar eru tveir þeirra staðsettir núna á Litla-Hrauni og einn í Fangelsinu Hólmsheiði. Málið var vissulega rannsakað af lögreglunni á Suðurlandi.

Þetta breytir því ekki að mörg fordæmi eru fyrir því að flytja réttarhöld á milli umdæma, meðal annars vegna plássleysis í smáum dómsölum á landsbyggðinni. Réttarhöld í Gufunesmálinu hefðu átt heima í sal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur. Mér er óskiljanlegt hvers vegna svo var ekki.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sítengd og stimpluð

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sítengd og stimpluð
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Réttindi og skyldur

Björn Jón skrifar: Réttindi og skyldur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sverð og skildir íslenskra hagsmuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sverð og skildir íslenskra hagsmuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Öfugmælavísa ritstjórans – niðurlæging stjórnarandstöðunnar tekur engan endi

Svarthöfði skrifar: Öfugmælavísa ritstjórans – niðurlæging stjórnarandstöðunnar tekur engan endi
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Til varnar „mömmuklámi“

Nína Richter skrifar: Til varnar „mömmuklámi“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Thomas Möller skrifar: Meiri fræðsla, minni hræðsla

Thomas Möller skrifar: Meiri fræðsla, minni hræðsla
EyjanFastir pennar
30.07.2025

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Aðild að ESB bakdyramegin

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Aðild að ESB bakdyramegin
EyjanFastir pennar
30.07.2025

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Er samtal svona hættulegt?

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Er samtal svona hættulegt?