Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, spyr hvort fyrirætlanir um stækkun Þjóðleikhússins, feli í sér þá ráðdeild sem þjóðin þarfnast. Hann telur áformin til marks um sérkennilega forgangsröðun.
Logi Einarsson greindi frá áformunum um síðustu helgi (sjá hér). Áætlað er að kostnaður við 2-3.000 fermetra viðbyggingu við Þjóðleikhúsið muni kosta um tvo milljarða króna. Er ákvörðuninni fagnað í tilkynningu frá Þjóðleikhúsinu: „Við hér í Þjóðleikhúsinu erum hreinlega í skýjunum með þær frábæru fréttir að langþráður draumur um nýtt leiksvið og aðrar úrbætur í húsnæðismálum Þjóðleikhússins verði að veruleika. Byggingin markar í raun merkustu tímamót í 75 ára sögu Þjóðleikhússins, því að þetta er í fyrsta sinn frá því að leikhúsið var vígt sem nýtt leiksvið er byggt,“ segir Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri.
Stefnt er að því að viðbyggingin verði tekin í notkun árið 2030, á 80 ára afmæli Þjóðleikhússins. „Yfirlýsingin kunngerir vilja ríkisstjórnarinnar til þess að ráðast í gerð viðbyggingar við Þjóðleikhúsið sem mun styrkja starfsemi þess svo um munar og leysa úr fjölmörgum, áratugagömlum úrlausnarefnum með fullnægjandi hætti,“ segir í tilkynningunni frá Þjóðleikhúsinu.
Á það er bent að Þjóðleikhúsið var reist árið 1950 þegar þjóðin var mun fámennari, íbúafjöldinn hefur þrefaldast síðan þá. Aðstaðan í húsinu hafi hins vegar lítið breyst.
Jón Steinar snýr þessu hins vegar við, hann telur samtímann hafa síðri þörf fyrir aukið leikhússpláss. Hann segir í Facebook-færslu:
„Þjóðleikhúsið var reist fyrir 75 árum. Í þá daga voru möguleikar til leiksýninga fábreyttir. Þjóðleikhúsið bætti verulega úr þeim og hefur sinnt þeim ágætlega síðan. Það hafa líka á undanförnum árum verið sýnd leikverk í samkomuhúsum um allt land.
Nú er öldin önnur. Möguleikar til hvers konar leiksýninga og annarrar dægrastyttingar hafa stóraukist með margfalt meiri tækni en kostur var á við stofnun leikhússins. Menn horfa t.d. á kvikmyndir í stórum stíl heima hjá sér í tölvum og sjónvarpstækjum. Þar er m.a. boðið upp á sýningar á mögnuðum meistaraverkum m.a. á sviði leiklistar. Á slíku var enginn kostur við stofnun Þjóðleikhússins.
Þrátt fyrir þetta eru nú kynntar áætlanir um meiriháttar stækkun á Þjóðleikhúsinu sem á að kosta marga milljarða króna. Stjórnendur ríkisins, leikarar og aðrir unnendur leiklistar taka í fréttum sjónvarpsins andköf af hrifningu.“
Hann bendir á að þessi áform séu kynnt á tíma þegar ríkissjóður eigi í miklum vanda og telur hann önnur verkefni brýnni:
„Um leið og þetta gerist er ríkissjóður í miklum fjárhagsvanda, sem leiðir til þess að ekki er hægt um þessar mundir að lækka vexti í landinu. Svo eigum við t.d. ekki fyrir fullnægjandi heilbrigðisþjónustu eða byggingu nauðsynlegra samgöngumannvirkja, svo tekin séu dæmi af brýnum verkefnum sem ríkissjóður kostar á Íslandi.
Ætli að í þessum fyrirætlunum um Þjóðleikhúsið felist sú ráðdeild sem þjóðin þarfnast?“