Dýrasta íþróttamynd sögunnar var slegin á uppboði um helgina og var kaupverðið rétt rúmlega 13 milljónir dollara, eða um 1,6 milljarða íslenskra króna.
Myndin, sem framleidd var af Upper Deck-fyrirtækinu fyrir tímabilið 2007-2008, er af tveimur bestu körfuboltahetjum sögunnar, Michael Jordan og Kobe Bryant heitnum, ásamt áritunum þeirra sem og bútum úr búningum sem þeir spiluðu í. Þykir það sérstaklega eftirsóknarvert að treyjubútarnir eru af lógói NBA-deildarinnar.
Um er að ræða einu myndina sem árituð er af bæði Jordan og Bryant og þess vegna var eftirspurnin eftir henni gríðarleg. Áætlað söluverð var um 6 milljónir dollara fyrir uppboðið en sú upphæð rúmlega tvöfaldaðist.
Fyrir söluna um helgina átti mynd af hafnaboltakappanum Mickey Mantle frá árinu 1952 metið. Sú mynd seldist á uppboði árið 2022 fyrir 12,6 milljónir dollara.