Kohberger, sem var meistaranemi í afbrotafræði, var dæmdur fyrir að myrða Kaylee Goncalves, 21 árs, Madison Mogen, 21 árs, Xana Kernodle, 20 ára og Ethan Chapin, 20 ára. Stakk hann þau til bana þar sem þau sváfu á heimili sínu í bænum Moscow í Idaho.
Kohberger játaði sök í málinu í sumar en með játningunni komst hann hjá því að verða dæmdur til dauða.
Í frétt People kemur fram að Kohberger hafi beðið um flutning vegna stanslausra hótana og áreitis frá öðrum föngum. Ekki leið nema einn dagur frá því að Kohberger hóf afplánun þar til hann bað fyrst um flutning, en það gerðist eftir að hann fékk hótanir frá nokkrum föngum í svokallaðri J-álmu hámarksöryggisfangelsisins í Idaho.
Þar afplána margir af hættulegustu glæpamönnum Idaho dóma sína, þar á meðal Chad Daybell sem situr á dauðadeild.
Mun Kohberger ítrekað hafa verið hótað líkamsmeiðingum og hafa fangaverðir staðfest það að einhverju leyti. Í frétt Fox News kemur fram að fangelsismálayfirvöld hafi lagt til að hann bíði storminn af sér og bent á að álman sem hann afplánar dóm sinn í sé yfirleitt rólegri en aðrar álmur fangelsisins. Óvíst er því hvort Kohberger fái ósk sína uppfyllta.