Morðið var framið þann 14. Júní árið 1982 þegar Janet var á leið til vinnu hjá tryggingafyrirtæki í Bay County. Bates nam Janet á brott, fór með hana út í skóg skammt frá þar sem hann gerði tilraun til að nauðga henni. Áður en yfir lauk stakk hann Janet til bana.
Janet hafði gifst eiginmanni sínum, Randy, þegar hún var 18 ára og í viðtali við USA Today á dögunum rifjaði Randy upp þennan örlagaríka dag.
Þau hjónin hittust heima í hádeginu og borðuðu saman og segist Randy hafa lagt til að hann myndi fylgja eiginkonu sinni aftur í vinnuna á sínum bíl. Henni þótti það óþarfa fyrirhöfn og fylgdist hann með eiginkonu sinni aka á brott frá heimili þeirra. Þegar Janet steig út úr bíl sínum á bílastæði tryggingafyrirtækisins sá Bates sér leik á borði.
Talið er aðeins tólf mínútur hafi liðið þar til Janet fór frá heimili sínu þar til hún var látin.
Bates var handtekinn stuttu síðar skammt frá vettvangi þar sem hann var þakinn blóði og með giftingarhring Janet í vasanum. Þrátt fyrir það hefur hann ávallt neitað að hafa orðið henni að bana.
Bates var úrskurðaður látinn klukkan 18:17 að staðartíma eftir að banvænni lyfjablöndu var dælt í æðar hans. Randy var viðstaddur aftökuna í gærkvöldi.