Kærunefnd jafnréttismála hefur úrskurðað fiskvinnslufyrirtæki í vil vegna kæru fyrrum starfsmanns. Starfsmaðurinn sem er karlkyns vildi meina að honum hefði verið mismunað á grundvelli kyns þar sem hann og aðrir karlkyns starfsmenn hefðu verið kallaðir til starfa þótt að hráefni skorti en það hafi ekki átt við um konur í starfsmannahópnum. Kærði maðurinn einnig það að hann hefði ekki fengið greidd laun í nokkur skipti þegar hann mætti ekki þegar vinnsla lá niðri.
Úrskurður í málinu féll í byrjun júlí en hann var ekki birtur fyrr en nú í ágúst.
Maðurinn lagði fram kæruna á síðasta ári en hann hefur nú látið af störfum hjá fiskvinnslunni. Maðurinn fullyrti í kærunni að á meðan hann starfaði hjá fyrirtækinu hafi konur ekki þurft að mæta til starfa þegar hráefnisskortur hafi komið í veg fyrir vinnslu en karlmenn hafi þurft að mæta. Mættu karlmenn ekki til starfa hafi þeir ekki fengið greidd laun. Hann hafi í nokkur skipti ekki mætt til starfa í vinnslustöðvun og því ekki fengið greidd laun Auk þess hafi karlmenn sem ekki mættu átt á hættu að fá áminningu frá verkstjóra eða vera jafnvel sagt upp störfum.
Fiskvinnslan vísaði þessu á bug og sagði það ekki satt að eingöngu karlkyns starfsmönnum hefði verið sagt að mæta til starfa í vinnslustöðvun. Þá væri hráefnisskortur ekki frí í skilningi kjarasamnings og starfsfólki bæri að mæta til vinnu væri það boðað til starfa. Þá kannaðist fyrirtækið ekki við að starfsfólki hafi verið sagt upp störfum vegna óútskýrðrar fjarveru í vinnslustöðvun.
Maðurinn vildi hins vegar meina að þegar ekki hefði hráefni verið til staðar hefðu konur meðal starfsmanna verið heima á venjulegu kaupi. Karlmenn hafi þurft að mæta til starfa klukkustund síðar en venjulega til þess að mála veggi og sinna þrifum. Mættu þeir ekki til starfa hafi þeir ekki fengið greitt og átt það jafnframt á hættu að fá áminningu frá yfirmanni eða vera sagt upp störfum. Hann sjálfur hafi ekki fengið laun í nokkur skipti þegar hann hafi ekki mætt til vinnu á meðan vinnslustöðvun var. Vildi maðurinn meina að um mismunun á grundvelli kyns væri að ræða.
Fyrirtækið benti á í sínum andsvörum að þegar vinnsla lægi niðri sökum hráefnisskorts væri tíminn alla jafna nýttur til pökkunar á frystum afurðum eða til ýmissa annarra verka sem annars væri ekki hægt að sinna á meðan vinnsla væri í gangi. Starfsfólk með kauptryggingarrétt héldi sínum launum fyrir dagvinnu í vinnslustöðvun þótti það væri ekki kallað til annarra verka á meðan.
Fyrirtækið sagði að á starfstíma mannsins hjá því hefði verið misjafnt hvaða starfsmenn hafi verið kallaðir til starfa þá daga sem vinnslustöðvun var. Í fæstum tilfellum hafi starfsfólk með kauptryggingarrétt, bæði konur og karlar, verið boðað til starfa. Þá hafi verið tilvik þar sem aðeins hluti starfsfólks hafi verið boðaður til starfa. Í meirihluta tilvika hafi hins vegar ýmist allir karlmenn eða tiltekinn hópur karlmanna með kauptryggingarrétt verið boðaðir til starfa.
Fyrirtækið sagði ástæðu þess að oftast væru aðeins karlkyns starfsmenn boðaðir í vinnu í vinnslustöðvun að hjá því hafi konur unnið einungis við snyrtingu og pökkun á ferskum fiski en karlmenn við pökkun á frystum afurðum. Sagði fyrirtækið þessa skiptingu þó ekkert hafa með kyn að gera heldur væri starfsfólki raðað í störf eftir því hvar viðkomandi liði best líkamlega og andlega. Í vinnslustöðvun væri frystum afurðum pakkað og það kæmi ekki til greina að nýta aðra starfsmenn í það verk en þá sem hefðu hlotið viðeigandi þjálfun. Fyrirtækið ítrekaði að starfsfólk fengi ekki sjálfkrafa frí í vinnslustöðvun og fyrirtækinu væri í sjálfsvald sett hvernig það hagaði vinnu á slíkum dögum. Vísaði þar af leiðandi fyrirtækið því alfarið á bug að hafa mismunað manninum á grundvelli kyns hans.
Í niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála er vísað til sérstakra ákvæða kjarasamnings Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins um fiskvinnslufólk. Þar komi skýrt fram að ef hlé verði á venjubundinni vinnslu skuli starfsfólk vinna önnur störf innan fyrirtækis. Í ljósi þessa og skýringa fyrirtækisins segir nefndin það hafa byggt á málefnalegum sjónarmiðum hvaða starfsmenn voru boðaðir til vinnu í vinnslustöðvun. Nefndin segir það einnig í samræmi við ákvæði kjarasamningsins að maðurinn hafi ekki fengið greidd laun þegar hann hafi ekki mætt í vinnu í vinnslustöðvun þrátt fyrir að hafa verið boðaður. Þar með hafi ekki verið sýnt fram á að fiskvinnslufyrirtækið hafi beitt manninn ólögmætri mismunun á grundvelli kyns.